Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

kemur sér vel

Ja hérna, hér. Þetta kæmi sér vel fyrir okkur sem höfum ekki efni á því að deyja. Það veitti ekki af svona happdrætti hér þar sem það kostar minnst hálfa millu að deyja og vera grafinn í vígðri mold. Með tilheyrarndi kaffisamsæti á eftir sem enginn getur verið þekktur fyrir að hafa ekki svona í lokin.

Þetta er auðvitað fyrir utan krónurnar sem fara í kirkjubatteríið af skattpeningunum okkar.

Helst vildi ég verða sett á bátskænu og sleppt á haf út og svo má brenna allt draslið að hætti víkinga. En það yrði að vera á Stafnesinu. Afkomendurnir sætu ekki uppi með skuldir í ofanálag við að missa ástvin.

Held ég reyni að hugsa um lífið restina af deginum.


mbl.is Vann ókeypis jarðarför í happdrætti - vinningurinn er ósóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andlaus og fattlaus

Þetta er greinilega einn af þessum dögum. Þið vitið, þegar það kviknar ekki á einni einustu peru í seríunni. En það er nú skýring á því.

 

Eins og ég skrifaði um í síðasta bloggi hefur mamma verið veik og í aðgerð. Góðu fréttirnar eru þær að hún var vel vakandi í morgun og flutt af gjörgæslu. Seigt í gömlu minni. Förum svo á fund með lækninum á mánudag um hvernig áframhaldið verður.

Veikindi í fjölskyldunni valda eðlilega því að maður er doldið á skjön við taktinn í lífinu. Finnst pústrar um hitt og þetta í heiminum einhvern veginn svo fjarlægir þegar ástvinur manns er veikur. En það stendu nú til bóta ef ég þekki mig rétt. Verð farin að rífa kjaft upp úr helginni spái ég.

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga.  

 


Í biðsal dauðans

hún mamma mín er búin að vera veik og á sjúkrahúsi síðustu daga. Nú er komið í ljós að hún er veikari en við héldum. Gamla konan er með æxli í ristlinum og á að fara í aðgerð í dag. Svo núna er bara að bíða og vona það besta.

Það eru 50/50 líkur á þetta gangi allt vel. Og eðlilega jafn miklar líkur á svo verði ekki. En án aðgerðar lifir hún ekki svo það er ekkert annað að gera í stöðunni.

Hún mútta mín er sko enginn aukvisi, sterk kona sem hefur ekki hátt um sínar skoðanir öndvert við undirritaða. Kvartar ekki konan sú. Hún er á níræðisaldri og hefur því fengið tækifæri til að lifa sínu lífi öfugt við þá sem falla frá snemma. Býr enn ein og getur séð um sig sjálf með smá aðstoð og hefur ekki þurft að fara inn á stofnun sem ég er óumræðanlega þakklát fyrir.

Svo nú er bara að biðja ykkur að senda bænir eða bara góðar hugsanir til hennar og vona það besta.


Nítjánda kom á óvart..

Maður hefði nú haldið að fólki væri farið að gruna hvernig börnin verða til eftir 18 stykki.

En hvað veit ég, konan er náttúrulega (:D) löngu búin að skjóta mér ref fyrir rass.  Kannski er þetta allt norðanvindunum að kenna. Þetta kom mér í gott skap. Njótið.

 

http://www.youtube.com/watch?v=rcwn7cDQrOI

 


mbl.is Nítjánda barnið kom á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Palin var valin...

Mikið held ég að það sé vont að vera forsetaframbjóðandi rebúpiblikana í BNA. Þetta útspil hans að velja konu sem varaforsetaefni var að mínu viti til að tryggja sér atkvæði kvenna og trúarnöttara. En bíðum nú við...

Í ljós kemur að dóttir konunnar 17 ára gömul er ófrísk! Hélt nú bara að þetta trúaða fólk gerði ekki dodo fyrr en eftir hjónaband. En þau ætla að giftast svo það er allt í lagi. Held að barnsfaðirinn sé jafngamall.

Síðan er eitthvað mál í gangi um brú sem gleypti fullt að grænum seðlum og ég kann ekki frekari deili á.

Nú hefur komið upp á borðið að verið er að rannsaka hvort fyrrverandi mágur (fyrrverandi? má þetta fólk skilja?) frúarinnar hafi verið rekinn úr starfi. Í kjölfarið á skilnaðinum við systur hennar. Tilviljun?

Hún er viss um að mengun sé ekki af mannavöldum.

Frúin ku líka hafa rekið fólk hægri, vinstri, sem henni líkaði ekki við og skipað vini í störfin þeirra. Ætli hún hafi komi til Íslands og lært við skör meistaranna hér? Ætli það sé ekki farið að fara um ellismellinn í ameríkunni.

En ég er svoddan kvikindi að það hlær í mér púkinn.

 


arfavitlaus auglýsing

Já , ég veit að ég er alger röflari en sumar auglýsingar fara svo hrikalega í taugarnar á mér. Sú sem pirrar mig þessa dagana er auglýsing um skemmtistað bragðlaukanna!

Hvað er skemmtistaður bragðlaukanna? Hvaða húllumhæ eru þá kynkirtlarnir? Nú eða endaþarmurinn? Skemmtistaður streptokokkanna? Arg.

 

Íslenskan er allt of myndræn til að nauðga henni svona. Sé alltaf fyrir mér tunguna á mér í brjáluðu diskó þegar ég heyri þetta. Kenwood chef.

Hætt í bili. Meira seinna. No worrys.


"Í brjósti mínu

býr ung stúlka sem neitar að deyja." Þetta eru orð sem ég heyrði um síðustu verslunarmannahelgi vestur á Snæfellsnesi. Þarna er verið að vitna í norrænan rithöfund sem ég bara man ekki hvað hét eða heitir. (veit einhver hver þetta var, þorry of miki röðvin)

Við sátum nokkrar fyrir utan Garða eftir dýrlegan mat framreiddan af stóra bróður, og sötruðum rauðvín og horfðum á sólina hella geislum sínum yfir jökulinn.  Með fullt að úandi og aandi útlendingum sem komust ekki yfir það að sitja þarna úti í kvöldsólinni.

Þessi setning er alltaf að dúkka upp í hausnum á mér vegna þess að þetta er einmitt svona. Það býr svona stelpubrussa í brjóstinu á mér. Hún er helvítis frekja. Getur aldrei setið kyrr og er sífellt að rífa kjaft. Hún man ekkert eftir því að ég er miðaldra, stútungskerling.

Þekkið þið þetta stelpur?


Það var sagt mér það..

Þessi setning er svo dásamlega vitlaus að ég varð að nota hana. Hana heyrði ég fyrst vestur á fjörðum frá nemendum mínum.  En ástæðan fyrir notkun hennar hér er alveg ótengd vestfjörðum og ekki ætla ég að gefa mig út fyrir að vera málfarsperri.

Heldur það að ég rakst á skrif sem segja að dýralæknirinn eigi þrjár dætur. Það er mér stórlega til efs að hans dætur þurfi nokkurn tíma að dýfa hendi í kalt vatn. Þær fá eflaust hlut í sparisjóðum og slíku í arf. Þurfa þar að leiðandi ekki að lifa á kvennalaunum eins og pöpullinn. Þannig að það að reyna að höfða til hans sem föður er eflaust eins og skot í myrkri.

En hvað með stjórnarsáttmálann um að jafna hlut kvenna í launamálum almennt og í umönnunarstörfum sérstaklega? Hvað segja nýju siðareglurnar um það að þingmenn ( kvenmenn og karlmenn) brjóti á bak aftur kosningaloforðin sín? Til hvers að setja lög um siðareglur og brjóta grunnregluna; að við kjósum fólk til að koma á framfæri þeim málefnum sem á okkur brenna.

Ekki það að svíkja kosningaloforð sé nýtt undir sólinni. Ónei. En ég í sakleysi mínu hélt ég að þar sem félagshyggjufólk blandast við íhaldið í stjórn að kannski yrði breyting á. Skammist ykkar til að semja við ljósmæður þið landsfeður og mæður. Þetta ástand er okkur til minnkunnar.


út úr skápnum

Það er komið að því að koma sér út úr skápnum. Ekki það að ég ætli að taka upp á því að miðjum aldri að æfa hvílubrögð með kynsystrum mínum. En ég er laumuplebbi.

Fékk mér hins vegar Fjölvarpið um daginn og nú krúsa ég á milli "homes under the hammer", "Devine design" og guð má vita hvað þeir heita þessir þættir sem ég sit undir eins og dáleidd hæna.

Er orðin nokkuð glögg á verði á húsnæði hér og þar í Englandi, þar geta t.d. nágrannar lagst gegn því að byggingar séu of háar og spilli fyrir þeir útsýni. Og það er hlustað á þá. Þarna eru líka þættir þar sem fólk kemur með dýrgripi til að fá þá metna af sérfræðingum. Rosalega intressant.

Ég sem hef lítið horft á sjónvarp í alveg svakalega mörg ár er orðin eins og hinir plebbarnir, horfi á sjónvarpið á kvöldin og tala svo um þættina daginn eftir. Ókeypis auglýsing fyrir Fjölvarpið.   Blush        Ég er plebbi.


að trúa eða trúa ekki

Hef undanfarið verið að blanda mér í umræðu um trúarbrögð. Það er sko eldfimt efni. Enda enn þann dag í dag verið að drepa og nauðga í nafni trúar. Aðrir eru svo fastir í bókstafnum að þeir sjá ekki út úr afturendanum á sjálfum sér. Staðreyndin að kristur kom sjálfur ekki nálægt umræddum skrifum virðist ekki skipta máli. Það að bókin er skrifuð löngu eftir dauða hans er einhvern veginn ekki inn í myndinni. Það að kirkjan valdi úr þá kafla sem hentuð og hélt eftir öðrum sem hentuði ekki er ekki með heldur. Kirkjan er heldur ekki uppfinning krists. Hún hefur hins vegar verið notuð til kúgunar og arðráns þegna sinna. Enn þann dag í dag er ekki aðskilnaður kirkju og ríkis á Ísalandinu góða.

Ætla mér ekki að vísa í eitt eða neitt máli mínu til stuðnings. Þetta eru mínar hugsanir og  pælingar um þessi mál. Prívat og persónulega eins og sjá má af því að ég birti þetta hér.

Ég verð að segja það að bókstafstrúarfólk í BNA skelfir mig. Ekki síður en öfgafullir múslimar. En við þurfum ekki að fara út fyrir landsteinana til að nálgast svona ofsatrú. Það sést best á skrifunum sem ég hef verið að lesa og athugasemdum frá fólki hér á blogginu.

Mér finnst allt gott um það að segja að fólk trúi og rækti sína trú. Það bara hreinlega kemur mér ekki við svo lengi sem það sama fólk er ekki að abbast upp á mig og reyna að berja mig í hausinn með biblíunni. Eitt af umræðuefnunum er t.d. hvort kenna eigi sköpunarsöguna sem vísindi?? (BNA)Vísindi? Já, einmitt. Ok, er að reyna að vera líbó, ef það verður gert þarna, kenna þeir þá ekki á sama tíma tilurð heimsins séð með augum hindúa, búddista, indíána.....

Þetta fólk sem skýlir sér bak við trú og bunar út úr sér "fire and brimstone" hugmyndafræði skelfir mig. Ég verða að segja það. Þeirra trú og sýn er sú eina rétta annað kemur ekki til greina. Þeir hinir sömu eiga einkarétt á himnaríki og það er öllum þessum trúfélögum sammerkt.

Mín fyrirmynd af kristnum manni er hann afi minn. Hann var lítillátur og ræktaði sína trú með sjálfum sér og hélt henni fyrir sig að mestu. En hélt henni þrátt fyrir langvarandi veikindi og allt fram til dauðadags. En hann var líka húmoristi og það er ekki hægt að segja það um þá sem sem ég hef verið að lesa undanfarið. Segi nú ekki meira.

Ætla að láta þetta korn fylgja sem hann afi gamli skrifaði og segir meira en mörg orð um hans trú:

"Komdu kæri Jesú

komdu inn til mín

krýp og höfuð hneigi

í hljóðri bæn til þín.

Gerðu það góði Jesú

græddu auman mig

vil um alla eilífð

elska og lofa þig.

Svo þegar kallið kemur

og kveldar hinsta sinn.

Gerðu það góði Jesú

geymdu anda minn.

 

Amen og kúmen eftir efninu.

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.