Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Húmorslaust fólk

Eitt af því sem einkennir greindar og vel gerðar manneskjur er húmor. Held meira að segja að hann sé lífsbjörg þegar illa árar. Væri berrössuð úti á túni ef húmorinnn væri tekinn af mér af einhverjum ástæðum.

Það er sagt að við löðumst að fólki sem er líkt okkur sjálfum. Held að það sé nokkuð rétt. Að minnsta kosti laðast ég að fólki sem hefur húmor. Fyrir lífinu sjálfu og ekki síst fyrir sjálfum sér.

Ofangreind greining á augljóslega við mig. Það vita allir sem mig þekkja.

Ég á það til að gantast með hluti við afgreiðslufólki í kauffélaginu og pósthúsinu og þannig. Oftast við góðar undirtektir. En inn á milli eru pappakassarnir. Ég læði út úr mér djúpri visku með húmorísku ívafi. Ekkert svar, munnvikin lyftast ekki millimetir.

Ég þoli ekki húmorslaust fólk!

Hef margoft sagt að þegar ég hætti að hlægja að öðrum og sjálfir mér er kominn tími til að panta far til Amsterdam. One way.

Lifi húmorinn. Eða deyji ella.

 


Öryrki á túr/niðurtúr

Nei, ég er ekkert á túr, hvorki þessum mánaðalega né á kojufylleríi. Fannst þetta bara svo flott setning að ég stal henni úr Fréttablaðinu. Þar er höfundur að segja frá vinkonu sinni sem breytti texta Suðmanna "energy og trú" yfir í öryrki á túr.

Ekki það að öryrkjar eru eflaust flestir á túr; niðurtúr. En það er allt í lagi því við vorum að kaupa Glitni. Það er náttúrulega miklu flottara að kaupa banka og gera feita starflokasamninga en að gera fólki kleyft að lifa í þessu landi. Það er ekki smart að vera öryrki.

Það vantar ekki peninga þegar við kaupum banka. En þá vantar til að greiða pöpulnum mannsæmandi laun og rétta hlut kvenna. Eða gera starfslokasamninga við fólk sem setur fyrirtæki á hausin, sei,sei, nei. Við ráðum þá aftur!

Held bara að Stuðmenn hafi séð þetta allt fyrir eða þá að það hefur ekkert breytst  síðan "Sirkus Geira smart" var vinsælt. Nema núna er annar skipper, væri ég að snúa textanum í nútíma aðstæður gæti langið heitið "Hirð Geira harða". Hvílíkur sirkus. Það þyrfti  að hafa góðan trommuslátt í laginu til að dilla sér kröftuglega í dansinum í kringum gullkálfinn.

Er annars nokkur hugsandi maður (kven- og karl-), ekki búinn að fá upp í kok af sirkusnum? Þessi línudans er svo assskoti erfiður fyrir gigtarsjúklinga. En það vantar kannski starfsmann í að leika trúðinn?

 


Krúttfærsla

Við nafna mín ætlum að eyða helginni saman. Hún kom í ömmuhús í gær með mömmu og fósturpabba og hakkaði í sig nýsoðna ýsu og hornfirskar kartöflur með rúgbrauði og mjólk. Og sagði auðvitað setninguna sem bræðir ömmuhjartað; "amma, þú ert besta amma í heimi".

Held nú að hún sé farin að skilja að þessi setning er góður gjaldmiðill til að spila út svona rétt áður en maður biður um einhvað gott!

Er eitthvað betra en að vakna við litla mjúka arma taka utan um hálsinn á manni og segja; "amma, vaknaðu, ég er svöng".

Er eitthvað fallegra í heiminum en lítil stelpa tiplandi á berum tánum í allt og stórum náttkjól af stóru systur? held bara ekki.

Er nokkur gjaldmiðill sterkari en eilífð mín á jörðinni í afkomendunum?

"Amma, ég kann alveg að baka. Getum við bakað í dag? Amma: Hvar lærðirðu að baka? Enginn kenndi mér það, bara heilinn!"

Ætla að drífa í að fela nýju saumavélina áður en hún ákveður að hanna fatnað á Baby Born og Barbí.

góða helgi dúllurnar mínar, veit að mín verður það.

Amma gamla. 

 


úti-búið

hef verið að krúsa á blogginu í morgun og sé það að ég er ekki ein með hugsanir mínar um hvað taki eiginlega við í þessu efnahagsástandi sem ríki hér.

Í alvöru talað ég er að fara á hausinn.

Reikningarnir eru að byrja að tínast inn um bréfalúguna núna þegar það fer að halla í mánaðarmótin. Maginn kominn í hnút sem losnar barasta ekki. Lánin af íbúðinni minni hafa hækkað um ca. 10.000- kall á mánuði eða um 120.000.- á ári. Það eru næstum því heil mánaðarlaun hjá mér. Ég verð greinilega að sleppa því að lifa einn mánuð á ári. Bankamafían hlýtur að vera stolt af því að fóðra vasana með þessum aurum.

Þetta er auðvitað fyrir utan hækkanir á matvælum, bensíni, tryggingum.....

Það var svo sem ekki úr háum söðli að detta. Það verður enginn feitur af öryrkjabótum á Íslandi. Að missa starfsgetuna er nógu slæmt, að gera fólki ómögulegt að lifa af bótunum sínum í ofanálag er náttúrulega bara til að drepa  það endanlega.

Er í alvöru talað að hugsa um hvort ég geti yfirhöfuð lifað á þessu landi.

Nú passa ég inn í að þá greiningu að bloggarar séu þunglyndir. Frown


Höfðar til kynslóða

Við stelpurna (lesist ég og dætur mínar) erum allar mjög hrifnar af þessari stelpu. Diskar gefnir í jólagjafir og afmælis og svo er hlustað í andakt. Finnst ég hafa lítið lesið um Emilíönu Torrini í íslenskum fjölmiðlum að undanskildu viðtali í sumar.

Nokkur lög eru í sérstöku uppáhaldi, njótið.

 

http://www.youtube.com/watch?v=d_XxUcRSpTc

http://www.youtube.com/watch?v=Ac_87o0UWUg

http://www.youtube.com/watch?v=MyuL1z2tejs

 

PS. nei, við erum ekkert skyldar, því miður.


læknir um lækni til sjúkrabíls..

Úff, þetta eru nú búnir að vera meiri dagarnir undanfarið. Hef eytt drjúgum tíma síðustu daga á sjúkrahúsum, í sjúkrabílum og biðstofum.

Fengum þær góðu fréttir að mamma er ekki með ristilkrabba eins og haldið var en krabbinn er annars staðar og ekki eins banvænn, þ.e. hún getur lifað í nokkur ár og þess vegna farið úr einverju allt öðru. Þannig að það er öllum mjög létt. Bíð eftir því að fá símtal um að fara á rúntinn með sjúkrabílnum og ná í gömluna mína til Reykjavíkur og flytja hana aftur suðureftir.

Hún mamma verður svo ligeglad af  lyfjakokteilnum fína sem hún er að fá að hún kallaði á eftir einum unglækninum "þú ert svo fallegur, þú ert eins og engill" og aumingja maðurinn varð eins og karfi í framan og hraðaði sér út! Þeir hafa ekki skorið burt húmorinn úr mömmu gömlu.

Þetta var heldur betur hersingin sem skundaði eftir sjúkrahússgöngum Lansans í gær, þarna vorum við mætt átta stykki til fundarhalds við lækninn. Þurftum skóhorn til að komast öll inn á stofuna til gömlu. Það ráku allir upp stór augu enda eflaust fáar fjölskyldur í dag með svo stóran "barna"hóp. En yndislegt að eiga góða að í fjölskyldunni og finna að við stöndum öll saman þegar eitthvað bjátar á.

Nú getur bara gott bestnað. Hver veit nema maður fari að geta gert að gamni sínu áður en langt um líður.

Læt þennan um konurnar sem fóru til Finnlands fljóta með: "Tvær konur fóru til Finnland, önnur lét lappa uppá sig og hin fékk sér sama."

Líður strax betur.....


Nöfn of nafnleysur

Ætli það skipti máli hvaða nafni við heitum? Hefur það á einhvern hátt áhrif á  það hvernig manneskjur við erum?

Það er auðvitað þekkt í mörgum fjölskyldum að sömu nöfn ganga í erfðir. Sólborgarnafnið er gegnumgangandi í föðurfjölskyldunni. Skondin saga af því er að mamma mín heitir Árnína Jenný eftir konu sem varð síðan tengdamóðir hennar. Og Jennýarnafnið er eftir mágkonu hennar sem dó sem lítið barn. Hún notar aldrei Árnínunafnið og er alltaf kölluð Jenný. Hagstofan er hins vegar búin að taka af henni Árnínunafnið þar sem hún notaði það ekki!

Ég ber nafn sem enginn annar á Íslandi heitir. Það er að segja fullt nafn. Ég var afskaplega ósátt við nafnið mitt sem krakki. Það hét enginn annar Rut sem ég þekkti. Svo settist mamma niður einn daginn og sagði mér hvernig það var ákveðið að ég héti þessu nafni: Elsti bróðir minn héti eftir ömmu og afa, sá næsti eftir föðurbróður mínum og eldri systir eftir föðursystur sem dó ung kona. Svo nú var komið að henni að velja nafn. Þetta var fallegasta nafn sem hún þekkti og þess vegna gaf hún mér það.

Þar sem nafnið er stutt er ómögulegt að stytta það í gælunafn en hún amma mín sá við því og kallaði mig Rutlu. Það nafn festist við mig og þegar ég hitti gamla skólafélaga þá kalla þeir mig gjarnan Rutlu.

Ég kaus sjálf að nefna dætur mínar valkyrjunöfnum. Sú eldri heitir reyndar eftir ömmu sinni en ég hefði ekki tekið það í mál nema vegna þess að mér þótti nafnið Valdís fallegt. Ég var ákeðin í því að ef ég ætti aðra dóttur ætti hún að heita Védís.

Hún var ekki alltaf sátt við nafnið sitt og verið köllu Véldís og guð má vita hvað. Hún Valdís mín er alger snilli að finna falleg nöfn á börnin sín; Hróar Þór, Esther Björg,  Embla Nótt og Elka Rut. Ekki amalegt það.

Einu sinni var ég stödd á Ólafsfirði ásamt Elku nöfnu minni. Við vorum að gefa fuglunum brauð. Hún var svo æst í fóðurgjöfinni að hún óð útí vatnið. Ég kallaði á hana;Elka komdu, ekki útí vatnið. Þá snéri sér að mér kona sem stóð við hliðina á mér og sagði mér að hún héti líka Elka, held þær séu fjórar á landinu. Skemmtileg tilviljun.

Jæja, þetta er bara að verða gott í bili. Ætla að skella mér í að undirbúa sunnudagsmatinn. Fyrir mína frábæru afkomendur. Með fallegu nöfnin sín.

 

 


Dagurinn í dag

LjónLjón: Eyddu tíma í að líta geðveikt vel út. Útlitið skiptir miklu máli, ekki af því að öðrum er ekki sama, heldur líður þér best þegar þú ert ánægður með sjálfan þig.

Svona hljóðar sem sagt speki dagsins. Samkvæmt mbl. stjörnuspá. Velsnyrt er konan ánægð.

Kahlil Gibran segir um fötin að:"að miklu leyti hylja fötin fegurðina, en ekki ljótleikann.

Þið klæðist fötum til aða hylja nekt ykkar og verða óháð en þau geta orðið ykkur reiðingur og fjötrar.

Ég vildi, að þið köstuðuð oftar klæðum og gengjuð nakin í sól og sunnanþey, því að andardráttur lífsins er í sólskininu og hönd lífsins í blænum."

AA- fræðin segja okkur að lifa í deginum í dag og ekki hugsa um gærdaginn né morgundaginn. Það hefur oft komið sér vel að nota þetta motto. Ekki að ég sé að líkja AA-fræðum, Kahlil Gibran og stjörnuspeki saman. Sei,sei nei.

Er nú bara að pæla í hvernig samsuðan af þessu öllu væri, fyrirsagnir blaðanna verða eitthvað á þessa leið:" Nakin kona gekk um götur Keflavíkur í dag. Að spurð sagði konan að stjörnspá dagsins hafi sagt fyrir um að hún skyldi líta sem best út í dag. Hún sagðist taka orð Spámannsins bókstaflega og vilji láta sunnanvindinn leika við kroppinn. Þar sem hún tæki einnig orð AA-fræðanna til sín lifði hún bara í deginum í dag."

Nei, kjánarnir ykkar, ég er bara að bulla í ykkur. Get a life!!!


hrottalegt ofbeldi á börnum

Guð minn góður hvað það er hræðilegt  að lesa þetta. Vesalings börnin, mamman í neyslu og áverkar benda til að pabbinn skutli í þau hnífum og berji á þeim. Hefur enginn í umhverfi barnanna séð neitt athugavert? Hann er grunaður um langvarandi ofbeldi. Eru allir sofandi þarna?

Sem betur fer eru börnin komin til afa og ömmur. En "faðirinn" gengur laus á meðan að málið er rannsakað. Hvílíkur andskotans aumingi má þessi maður vera. Á varla orð til að lýsa því hvílíkt ógeð ég hef á fólki sem leggur hendur á börn. Hvernig er hægt að gera svona . Ég bara get ekki skilið það.

Ég sló einu sinni eldri dóttur mína á rassinn og ég er enn með samviskubit nærri þrjátíu árum síðar. Þar með er upp talinn minn ofbeldisferill. Hvernig ætli sálarlíf mannsins sé? Hvernig er hægt að réttlæta svona fyrir sjálfum sér og halda áfram að níðast á börnunum?

Það þarf svo sannarlega meira en getnað til að vera foreldri.


mbl.is Grunur um hrottalegt líkamlegt ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.