Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Viðhaldið mitt.

 

 

Ég má til að blogga svolítið um viðhaldið mitt. Hann klikkar aldrei. Hann er alltaf til staðar þegar ég þarf á honum að halda. Heitur og mjúkur.

Við erum búin að vera saman um nokkurt skeið. Enginn líknar eins og hann þegar ég þarf mest á því að halda. Sumar, vetur, vor og haust. Það geta ekki margir státað af slíkum stöðugleika, ekki einu sinni Doddi í Verðbréfalandi.

Þegar gigtin herjar á með lækkandi sól og tilheyrandi kulda er hann sá sem ég leita til. Við höfum varla komist fram úr rúmi síðustu daga svo innilega erum við spyrð saman. Ég gæti ekki hugsað mér lífið án hans.

Ég er auðvitað að tala um hitapokann minn. Dónarnir ykkar. Hélduð þið að ég ætlaði að fara að klæmast hér fyrir alþjóð? Aldeilis ekki. Allt of settleg kona.

Nú þegar ég er búin að atast í ykkur segi ég bara; góða helgi og látið sjást til ykkar á morgun.

Svona bara til gamans, gamalt og gott og heitir Hopelessly hoping.

 

 


Ganga og fundur

Bara að minna á að gangan á morgun hefst kl. 14:00 á Hlemmi. Gangan heldur svo áfram að Austurvelli og fundurinn hefst kl. 15:00. Nú geta allir sem ekki eru sáttir við gang mála,  látið það í ljós með því að taka þátt.

Tökum okkur nú saman og sýnum í verki að við getum staðið saman.


Að rannsaka sjálfan sig

Nú ætla ég að leggjast undir feld og rannsaka sjálfa mig. Og út frá því að rannsaka börnin mín. Ég er auðvitað afar hæf í þetta starf. Og algerlega óhlutdræg. Það segir sig sjálft.

Ef þau hafa verið óþekk þá fá þau kannski léttan skell á bossan en það þarf ekkert að vera að útvarpa því. Enda okkar prívat mál.

Ekki það að mínir krakkar eru eðlilega miklu betri krakkar en almennt gerist. Enda ól ég þau upp. Ég innprentaði þeim að við segjum alltaf satt. Og gerum alltaf rétt.

Það er alger óþarfi að vera að kalla til menn sem ekki eru í fjölskyldunni. Hvað kemur öðrum þetta við? All in the family.

Nú skyldi ég hlægja ef ég væri ekki dauð eins og kerlingin sagði.

Þetta er Ísland í dag.


mbl.is Álíta sig hæfa til að rannsaka syni sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Working class hero

Þessi kveðja er til ykkar sem standið vaktina.


Konur eru frá Venus, karlar frá Mars en ég er frá Júpiter

Veit ekki hvort ég er ein um það að líða stundum eins og ég sé stödd á vitlausri plánetu. Þessi tilfinningin hefur ágerst undanfarið. Ég er hreinlega ekki viss um að við fólkið í landinu búum á sama stað og þeir sem hér stjórna. Gapið verður stærra með hverjum deginum ef eitthvað er.

Geir, yfirmaður okkar allra, lýsir yfir fullum stuðningi við bankastjórn Seðlabankans. Enda hefur sú stjórn staðið sig með stakri prýði. Eða þannig. Raddir okkar fólksins heyrast ekki þegar við mótmælum og viljum að skipt verði út því fólki sem hefur ekki staðið sig í stykkinu. Það er meira að segja gert svo lítið úr mótmælum þeirra sem mættu á fundinn að útgefin tala um mannfjölda var stórlega lækkuð.

Annars um fundinn s.l. laugardag. Er Kolfinna Baldvinsdóttir með sér mótmæli? Erum við ekki öll að mótmæla því sama? Hvaða prímadonnustælar eru þetta eiginlega.  Sameinuð stöndum við.

Fagna því að ISG sé komin aftur til starfa. Held að hún hafi verið með sjálfstæðisflokkslagað æxli sem nú sem betur fer hefur veri numið á brott.  Óska henni góðs bata.

Silkihúfurnar standa upp hver af annarri og segja okkur að það sem skiptir mestu máli núna í kreppunni sé að halda utan um hvert annað og senda knús og kveðjur. Skrítin tilviljun að þessar sömu húfur eru allar mun betur launaðar en allur almenningur. Þó ég sé allra jafna afar fús til að gefa knús og kram þá er það ekki efst í huga mér. Ég vil breytingar.

Ég vil að landinu mínu sé stjórnar af fólki með fulle fem. Sem er starfi sínu vaxið. Og fer frá þegar og ef fram kemur að það sé það ekki. Ísland er ekki einkafyrirtæki. Þetta er landið mitt og allt sem hér fer fram kemur mér við. Bara svo það sé á hreinu. Og meðan ég dreg lífsandann mun ég mótmæla því að hér vaði menn uppi með rányrkju og reyni svo að sussa á okkur þegar við mótmælum. Og geri lítið úr því.

Hörður Torfason, ég tek hattin ofan fyrir þér.

Og svo áður en ég sest á kústinn og krúsa um himingeima, góðan og blessaðan daginn.

 

 

 


Allt mér að kenna

Ef ykkur vantar blóraböggul þá er hann hér lifandi kominn. Þetta var allt mér að kenna. Ég keyrði fjármálkerfi landsins fjandanst til með vöxtum og verðbólgu á meðan ég sat í Seðlabankanum. Strákarnir voru svo sætir við mig að þeir þeir smíðuð svona regluverk þannig að við gætum leikið okkur svoldið og farið í svona smá áhættufjárfestingar. Bara allt í góðu.

Svo héldu þeir svo skemmtilegar veislur strákarnir. Þar skemmti sko ekki Geiri Ólafs, bara svo þið vitið það. Þar var sko fína fólkið allt saman komið. Skutust þetta á einkaþotunni strákarnir.

Svo seldum við okkur nokkur bréf svona í mesta bróðerni og keyptum þau svo aftur, bara eins og þegar við skiptum myndum að fótboltahetjunum okkar. Eru ekki allir í stuði?

Svo er þetta lið úti í bæ að rífa kjaft. Eins og okkur sé ekki slétt sama! Þetta eru tómir aumingjar og öryrkjar og gamalmenni. Allt á fylleríi eða þaðan af verra. Ekki smart lið. Má ég biðja um fólk sem á að minnsta kosti eina snekkju eða svo.

Nú er veislan búin, hvar er þetta pakk sem vinnur við að þrífa? Örugglega allir á fylleríi. Enn eina ferðina. Það þekkir ekki sinn stað þetta fólk. Ég sver það. Eins og það þurfi ekki einhver að þrífa. Heldur þetta fólk að ég þrífi? Er ekki allt í lagi?

Nei, nú er kominn tími til að þetta lið átti sig á því hver er hver í þessu landi. Og byrji að skúra, skrúbba og bóna. Og steinhaldi kjafti.

Eru ekki allir í stuði?

 


Frelsi

Myndlíkingin af Íslandi, eins og frægt er orðið,  sem skipi hefur verið mikið notuð af pólitíkusum á þessum síðustu og verstu tímum. Skipið steytti á skeri, fékk gat á botninn og nú gusast sjórinn inn um rifinn skrokkinn. Nú skulu allir upp á dekk og ausa.

Það er búið að landa aflanum og hann seldur erlendis. Ágóðinn fór til  þeirra fáu handa sem með fullu umboði yfirvalda seldu hæstbjóðanda. Landinn fær kannski eins og einn, tvo ýsusporði og ætti bara að vera þakklátur fyrir.  Og haldiði svo bara áfram að róa þrælarnir ykkar, nógu gott í kjaftinn á ykkur. Nú kaupum við aftur aflann sem við seldum áður og ræðararnir sjá eðlilega um að skipið sigli áfram. 

Það er lítið frelsi í því að vera rígbundinn við árarnar hvort sem manni líkar það betur eða verr. Ekkert er vitað um lendingarstað enda kemur okkur það ekkert við. Róa skulum við. Og börnin okkar og barnabörn. 

Get illa séð að við séum svo mjög frábrugðin ræðurum þrælaskipa hér á árum áður. Við erum betur klædd og flutt úr moldarkofunum en þar held ég að samlíkingunni sleppi. Og framtíð okkar ásamt barna og barnabarna í höndunum á próflausum skipstjóra og illra menntaðri og ill siðaðri  áhöfn sem ekkert virðist kunna í siglingafræðum.

Að lokinni þessari tölu fylgir hér ljóð eftir Vilmund Gylfason. Hann var líka einn af þessu óþægu sem hélt ekki kjafti og vildi breytingar. Fyrir ræðarana:

"Frelsi

þetta orð

sem við aldrei skildum.

Það var svo einfalt að berjast fyrir frelsi, segja þá kynslóðirnar, en við vitum, að það erfitt að vera frjáls. Og kannske  var aldrei neinn frjáls utan Zorba. Því frelsi gerir fæsta meiri en efni standa til,- og því getur verið erfitt að kyngja. 

Frelsið

við höfum gert það að skækju

og við sofum hjá henni

fyrir lítið verð." 

 

Ship ohoj. 

 

 

 

 

 


Bankastjórarnir með of há laun+ smá leikfimisæfingar

Enn og aftur hefur heilög Jóhanna sýnt að hún er eini stjórnmálamaðurinn í þessari ríkistjórn sem er óhræddur við að tala um það sem brennur á þjóðinni. Núna síðast með því að mótmæla háum launum stjórnenda bankanna. Það er að segja þeirra sem hafa láti svo lítið á annað borð að segja okkur vinnuveitendunum sínum, frá því hversu mikið þeir hafa í laun.

Enn og aftur er það kýrskýrt að það að höndla með peninga er það sem skiptir mestu máli. Borið saman við aðra ríkisstarfsmenn sem bara höndla með fólk, líf þess og heilsu.

Ekki það að það sé nokkuð nýtt undir sólinni. En ég vil prívat og persónlega þakka henni fyrir.

Aðrir sálmar:

Núna sendir fólk hvort öðru smá leikfimisæfinar í formi emaila og smsa. Þær eru svona:

1. Banka með flötum lófa á bringuna.

2. Rétta úr handleggjum og kreppa hnefa.

3. Banka, kreppa, banka kreppa......

Hafið það svo gott í snjónum elskurnar mínar.

 

 

 


mbl.is Bankastjórarnir með of há laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helpless

Það er úr mér allur vindur þessa dagana. Eflaust er ég ekki ein um það. Þjóðin er í áfalli og enginn veit hvað tekur við.

Stjórnarmenn segja okkur ekki rassgat um hvað er verið að ræða um þeirra á milli. Eins og okkur komi þetta ekkert við. Þeir koma fram við okkur eins og óþæga krakka þegar þeir eru spurðir um hver framvindan verður og hvaða skilyrði verða sett fyrir lánveitingum. Svona, svona, þú færð að vita þetta þegar þú verður stór. Þvílíkur dónaskapur af hendi þessa fólk sem  ætlast svo til að við treystum þeim fyrir lífi okkar og afkomu.

Verð að segja að ég er fegin að rússarnir eru ekki lengur með. Lýst mun betur á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (að óséðum skilmálum) og svo aðrar norðulandaþjóðir í kjölfarið.

Það er allt útlit fyrir að lífeyrissjóðsgreiðlur til pöpulsins verði skertar. Nema náttúrulega þingmanna. That go´s without saying. Þannig að allar 38.000- krónurnar sem mér eru skenktar mánaðarlega eftir að hafa unnið fyrir mér frá því ég var unglingur, verða enn lægri. Þeir sem settu okkur á hausinn fá hins vegar óskert laun í formi lífeyrissjóðsgreiðslna. Takk fyrir takk. Skyldi nokkurn undra að fólk sé þunglynt þessa dagana.

Er ekki einhver þarna úti sem vill kaupa lífið mitt? Selst á spottprís. Vegabréf fylgir eftir eina notkun. Eina skilyrðið er að ég fái fyrir farinu til Amsterdam one way.

 

 

 


Staying alive.. nýr þjóðsöngur?

Halló Hafnarfjörður. Þegar hjartað sleppir úr takti í hremmingunum þá er bara að setja Bee Gees á fóninn og taka sporið!

Annars held ég að þetta lag gæti verið nýi þjóðsöngurinn okkar núna þegar íslendingar í útlöndum segja frá því að þeim er sagt upp húsnæði, hrækt á þá og þeim neitað um þjónustu... allt vegna þjóðernis. Við erum orðin eins og þeir þjóðverjar sem voru ekki með í þeim darraðardansi sem seinni heimstyrjöldin var en sátu engu að síður uppi með skömmina.

Jæja, ef hjartað sleppir úr takti þá er bara að hlusta á staying alive. Þessi þáttur er í boði Sjálfstæðismanna, sérstaklega Davíðs, Landsbankans, Glitnis, Kaupþings og allra hinna drullusokkanna sem komu okkur hingað!!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.