Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Eigna- og skuldaregister.

Jæja, það kom að því að Doddi verði rekinn úr Svörtuloftum. Það hefur verið mikið sjónarspil í gangi undanfarið um hversu mikið hann reyndi að vara við því að allt væri á leið til fjandans, bréf send, á réttum pappír og frá réttum stað, mikið um fundarhöld sem erfitt er að henda reiður á. En semsagt, nú fer hann loksins karlinn.

Áddni tekur upp hreðjaklípur (átti hann þær ekki fyrir?) og getur nú stundað hrossakaup eins og honum er einum lagið.  Sumir setja upp eigna og skuldatal á síður sínar amk. þær sem lúta að heimilishaldi viðkomandi. Mikið svakalega væri gaman að skyggnast inn í bókhald sumra.

Bara tveir eftir í Frjálslynda, minn gamli félagi Grétar Mar og hver var aftur hinn?Grin

Mitt eigna og skuldaregister er þannig vaxið að ég á ekki krónu lengur, allt sem ég hef unnið fyrir og sparað og klipið af til magra ára er fuðrað upp á verðbólgu, vaxta og verðbótabálinu. Langt fyrir neðan núllið. Þá vitið þið það. Þó ég seldi íbúðina fengi ég ekki upp í skuldirnar sem núna hvíla á eigninni. Eins og flestir aðrir landsmenn.  Ættjarðarfjötrar hétu þetta ástand einhvertíma. 

Annars hefur gigtin verið að drepa mig undanfarið þeas. á meðan frostið varði. Hef varla komist upp og niður þessar þrjár tröppur sem ég þarf að ganga til að komast inn og út. Veit að allir hafa beðið í ofvæni eftir skýringu á því hvað ég hef verið slöpp á blogginu.Smile Staulast um eins og Grasagudda eða Jobbagunna sem við sandgerðingar þekktum sem börn.

Aðalástæðan er engu að síður aðallega sú að það væri að bera í bakkafullan lækinn að kommenta á það sem er að gerast á landinu bláa (bleika?). Það sjá aðrir um að hamra járnin svona rétt fyrir kosningar.

Talandi um kosningar þá var bloggvinkona mín Wink að stinga upp á að við skiluðum kjörseðlum með áritunninni "Utanþingsstjórn" en engu Xi. Amk. veit ég ekki í dag hvert xið mitt fer ef það fer þá nokkuð. Nema auðvitað að hvorki  Sjálfgræðgis né Framapotaraflokkarnir fá það hjá mér. Xið sko. 

Jæja, nú er ég að verða klámfengin, best að fara að liðka stirða liðina og bóna geðið. Adios amigos.

 


62 bílar og smá minningargrein.

Svona bitlingar eru ekki alveg að sýna almennum borgurum að hér ríki kreppa. Ekki heldur 27 bílar. Hvernig stendur á því að þeir sem hæst hafa kaupið fá bíla upp í hendurnar á meðan að borgarar landsins eru að missa sína. Er ekki eitthvað skakkt við þessa mynd?

Hvað ætli margir á Íslandi hafi 25.000 kall á tíminn? Fastráðnir eða sem verktakar? Og fái greitt úr ríkissjóði. Hefur ekkert breyst?

Indland heillar! 5* ekkert minna, takk fyrir takk. 

..............................

Hann pabbi minn hefði átt afmæli í dag. Fæddur 20.02.22, þegar hann varð áttræður var hægt að lesa ártalið eins afturábak og áfram. Vitur sagði mér að það gerist eingöngu með löngu millibili, man ekki lengur hversu löngu. Hann pabbi gamli var krati og var kominn af ennþá lengra til vinstri fólki. Og morðingja en það er önnur Ella.

Hann trúði á að hér væri hægt að byggja upp samfélag sem allir fengu notið sín. Öll börnin hans 8 hafa menntað sig og gert það bara nokkuð gott og sumir mjög svo gott. Held ekki að margir geti státað af sig af slíku.

Ætla nú ekki að segja að hann hafi verið gallalaus maður eins og oft vill brenna við þegar við minnumst þeirra sem farnir eru. En hann var heiðarlegur og duglegur og ætlaðist til að börnin hans væru það líka. Hann var sérstaklega vel liðinn sem yfirmaður og allir þeir sem unnu undir hans stjórn hafa gott eitt að segja um hann. Orðstír deyr aldrei.

Mikið svakalega er ég fegin að hann þarf ekki að upplifa þessa tíma. Og þurfti aldrei að fara á elliheimili né lenda í hreppaflutningum. 

Takk fyrir allt og allt pabbi minn. Minningin um þig lifir með okkur börnunum þínum og öllum tæplega 90 afkomendum.  Blessuð sé minning þín.

 

 


mbl.is Lúxusbílar staðgreiddir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Partý, ég bíð!

Og sendi svo reikninginn til sveitafélagsins. Ég ætla að bjóða öllum þeim sem sammála mér eru í pólitík í flott partý! Léttvín og smáréttir í boði. Við ætlum að ræða aðhald og sparnað á krepputímum. Svo getum við mært hvort annað í svona einn, tvo tíma og að partýinu loknu sendi ég reikninginn á sveitarfélagið.

Það getur varla nokkur maður sagt að það sé eitthvað athugavert við þetta, er það? Þetta er ekki nema svona 90.000 kall, það er enginn peningur. Eins og framfærsla á einum aumingja hjá Féló í mánuð. Ekkert til að vera með fuml og faml um, er það? 

Ég er sko búin að fá nóg af þessum skríl sem skilur ekki að maður lifir ekki á brauði einu saman. Það þarf að lyfta upp andanum líka.  Ekkert gerir það eins vel og ærlegt partý með skoðanasystkinum. Þið eruð hér með boðin! Partýið verður haldið í Leikhúsi fáránleikans, Lísa í Undralandi verður skemmtanastjóri. Vær só gúð:

 

 

 


Landið brennur.

Fólk kveikti elda á Lækjatorgi í gær. Allir voða hneigslaðir sko. Rumpulýður sem veit ekki hverju það er að mótmæla. Sama með mótmælendur við Bleðlabankann. Tómur skríll.

Halló þið þarna á Alþingi Íslendinga. Hvernig væri að hætta með frammíköll og málþóf og gera eitthvað af viti. Landið brennur! Hvar eru aðgerðirnar til að bjarga heimilunum? Hvar er niðurfelling af hluta af lánum vegna íbúðakaupa, hvort sem það er með því að ríkið eignist hlutann eða hreinlega afskriftir, sumir hafa nú fengið svoleiðis fyrirgreiðslu, er það ekki? 

Hvar er afnám verðbótanna sem er að ganga frá heimilunum á meðan þið rífist eins og krakkar á þingi? Skuldir heimilanna hefur margfaldast, bara ef þið vissuð það ekki. Og halda því áfram dag frá degi. Við eigum ekki 80 daga. Það eru ekki til peningar hjá Jóni og Gunnu til að borga þetta. Á þinginu heyrist bara hann sagði, hún sagði.

Í guð bænum farið nú að hysja upp um ykkur buxurnar og  bretta upp ermar og guð má vita hvað þarf til að þið farið nú að gera eitthvað fyrir okkur óbreytta borgara og sem við finnum á budduni okkar. Plís, gefið okkur von um að við höldum heimilinum okkar og gerið okkur kleyft að standa við skuldbindingar sem eru miklu hærri en við samþykktum í upphafi.

Koma svo.

 

 

 


I told you so.

Framasókn er ekki viss um að hún styðji frumvarp til breytinga á starfssemi Bleðalabankans. Ætla að athuga málið. Ætli hnífasettið sé komið upp á borð? Var búin að spá því að Framasókn væri memm bara til að sprengja stjórnina þegar þeim hentar. Þeir eru jú, fyrrverandi bestu vinir Sjálfgræðgisflokksins í fyrrverandi stjón. Og kannski ekki svo mikið fyrrverandi eða hvað. Vona svo sannarlega að ég hafi ekki verið sannspá. Ekki gott pr fyrir þá flokksómynd.

Sjálfgræðgismenn tala sig bláa í framan um að aflétta leynd af bréfi AGS, þó sjóðurinn vilji ekki gera innihaldið ljóst. Þrátt fyrir beiðni Jóhönnu um slíkt. Voru það ekki þeir sem sömdu og vita þar af leiðandi allt um samninga vora við sjóðinn.

Vona svo sannarlega að allar upplýsingar komi upp á borð þegar sjóðurinn kemur hingað um miðjan mánuðinn. Sjálfgræðgisflokkurinn vill að hlutirnir séu uppi á borði!! Þeir vilja hins vegar ekki gefa uppi hvernig bréf til forsætisráðherra barst þeim í hendur! Hvernig er slíkt hægt, eru þeir með hakkara á sínum snærum? Heitir þetta ekki að vera beggja vegna borðs? Í beinu framhaldi hlýtur Doddi að segja okkur frá því sem honum og Jarpi fór á milli þegar hryðjuverkalögnin voru sett á okkur. Er það ekki?

The show must go on.

 

 

 

 


Vinir vors og blóma. Öfugmæli.

Já, glöggt er gests augað.

Ekki nóg með að hriplek skútan (skipið, eina ferðina enn) sökk á vaktinni þeirra í Bleðalbankanum og alþjóð híar á okkur og er ekki tilbúin til að taka okkur alvarlega sem þjóð á meðan þessi menn sitja þá ekur starfsmaður bankans á mótmælanda. Fróðlegt að sjá hvað erlendir fjölmiðlar gera úr þeirri uppákomu.

Mér þykir arfavont að vera íslendingur sem er hæddur og híaður af hinum stóra heimi. Að við minnumst ekkert á hérna heima. 

Vil ekki vera dæmi um siðleysi ráðamanna og hreina og klára heimsku þeirra sem ekki þekkja sinn vitjunartíma.

Ég vil vera dæmi um það hvernig þjóð sem hefur verið þrælað út til að hygla fáum, stendur upp með potta og pönnur og tekur aftur stjórnina í sínar hendur.

Ég vil vera dæmi um það að það er hægt að byggja upp samfélag sem hefur þarfir fjöldans að leiðarljósi. Ekki meira vina/frænda/sona/dætra bitlinga.

Ég vil vera dæmi um að hér ríki jafnt hlutfall kynja. Þar sem konur eru jú um helmingur heimsins.

Ég vil vera dæmi um að hægt er að snúa öfugþróun við og byggja upp á rjúkandi rústum. Af heilindum.

Ég vil vera dæmi um að hugvit, menning og saga verði það sem við presenterum okkur með ekki hroki og græðgi.

Ég vil............

 


mbl.is Christensen: Neyðarlegt að Davíð segi ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að njótaToyota.

Nú er það ljóst að forstjórinn hjá Toyota vill ekki að alþjóð viti að hann fékk 14 milljón króna bíl á kostnað fyrirtækisins. Dettur nokkrum í hug að þessa 14 millur verði lagðar ofan á verð bíla frá Toyota? Of course, my horse, hvað annað? Lægra settir starfsmenn tóku á sig kreppuna. Hljómar þetta kunnuglega?

Hvað skyldi, svona almennt, vera stór hluti vöruverðs í svona bílabitlingum, eða bitlingum almennt? Eru topparnir með svona lág laun að þeir hafi ekki efni á bíl? Hér greiðum við oft margfalt verð á vörum miðað við nágrannaþjóðir okkar sem ekki skýrist af flutningum og tollum. 

En að kjarna málsins. Varðar það ekki við lög að reka starfsmenn vegna skrifa þeirra? Ríkir ekki skoðana- og tjáningarfrelsi hér á landi? Skrifa starfsmenn undir trúnað hjá bílaumboðunum? Hvar er nýendurkjörinn formaður VR? Nú hlýtur hann að bretta upp ermar og sýna að félagsmenn eiga gott bakland við svona aðstæður, haggi? Vanir menn.

Ansi hreint erum við komin út af sporinu ef þetta er það sem koma skal. Fólk missir vinnuna fyrir að tjá sig á sínu bloggi. Það er ekki hægt að reka mig, ég er opinber aumingi eins og ég segi stundum. Verð það að öllum líkindum áfram, hef amsk. ekki heyrt um neinn sem hefur batnað af gigt. 

Boykotta þetta fyrirtæki. Við höfum sýnt og sannað að við getum ýmislegt með samstöðu. Við skulum njóta þess að kaupa ekki Toyota og gefa svona fyrirtækjum langt nef. Vona að Halldór fái aðra og betri vinnu og fari í mál við þetta fyrirtæki því svona framkoma má ekki líðast. 



mbl.is Bloggari rekinn fyrir skrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Námskeið takk.

Svona gerir fólk úti í hinum stóra heimi. Getum við ekki fengið manninn hingað til að halda námskeið? Frummælendur gætu verið þeir pólitíkusar sem hafa klúðrað sínum málum. Mér detta nokkrir í hug sem gætu haft gott af svona námskeiði sko. 

Obama sagði; "I fucked up" eða eitthvað í þá veruna og maðurinn vék eins og hendi væri veifað.  Ótrúlegt en satt. Svona getum við líka haft hlutina, bara ef við viljum. Segi það og skrifa. Vilji er allt sem þarf. Það hafa greinilega orðið stjórnarskipti í BNA. Nú er að sjá hvort það sama gerist í okkar stjórnarskiptum.

Össur mætti taka t.d. spara okkur p.r. manninn sinn og senda hann heim. Er ekki annars kreppa? Erum við ekki að sparar í ríkisútgjöldum?

Sjálfgræðismennirnir þyggja allir biðlaun, þann fjandans ósóma (hvorki bin Laden eða BarakSmile). Og stefnuskrá nýju stjórnarinnar var öll runnin undan rifjum þeirra sko, segir ÞKG, það var bara ekki búið að framkvæma neitt af þessu. Sigurður Kári talar sig bláan í framan um pínu almúgans. Ef þetta væri ekki grafalvarlegt mál þá væri þetta sprenghlægilegt. 

Leiðrétting; þetta er sprenghlægilegt. 

Annars bara góð á því. 


mbl.is Daschle dregur sig í hlé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju íslenskar konur.

Loksins stelpur. Okkar tími er kominn. Jafnt hlutfall kynja í nýrri ríkisstjórn auk þess að Jóhanna er orðin forsætisráðherra.

Mikið svakalega erum við búnar að bíða lengi. Hjúkkit maður, loksins. 

Ég er sannfærð um að þetta kynjahlutfall muni breyta áherslum í stjórnun landsins. Kannski "mýkri" málin verði ofar eins og verkefnalisti stjórnarinnar ber merki. 

Að ég best veit eru þetta allar hæfar konur.

Ég er stolt að ykkur kynsystur mínar og í dag er ég stolt af því að vera íslensk kona. 

Þið sem túlkið þetta sem kvenrembu megið fara á aðrar síður.

 


 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband