Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Ekki öll von úti...

OMG maður getur enn dritað niður börnum samkvæmt þessari frétt. Á meira að segja enn nokkur ár eftir samkvæmt þessu. Þetta er einmitt það sem mig langar svo í eftir að hafa alið upp börn í rúm 30 ár. Byrja hringinn aftur. Eða þannig.

Segjum svo að ég fari á elliheimili 76 ára þá gæti barnið sem ég fæddi 59 ára, ekið mér þangað, þeas. ef barnið væri búið að fá bílpróf.

Ég átti yngri dóttur mína 35 ára og var oftar en ekki miklu eldri en mömmur vinkvennana. Og ótrúlega gamaldags að hennar mati á stundum.  Ég gæfi ekki í mig í vökunætur og bleyjuskipti og eyrnaverki og magaverki og tanntökur og ælupestar....

Má ég biðja um mín yndilegu barnabörn sem stoppa hjá mér um tíma og fara svo til foreldra sinna aftur. Náttúran ætlar okkur ekki að eiga börn eftir ákveðinn tíma. Ef við getum fengið ljósmóður til að taka á móti......


mbl.is Eignaðist þríbura 59 ára gömul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðli starfa.

Það hefur löngum einkennt hefðbundnar kvennastéttir að þær láta sig manngildi varða. Ljósmæður eru ein af þessum stéttum. Þær fylgjast með nýju lífi vaxa og dafna í móðurkviði, taka á móti börnunum okkar sem eru það dýrmætasta sem við "eigum". Þær sjá síðan um fræðslu, eftirlit og fylgjast með heilsu móður og barns. Svona frá mínum bæjardyrum séð er eðli þessa starfs svo óumræðanlega mikilvægt að ef við tækjum mið af eðli ljósmæðrastarfsins til launa þá skyldi maður ætla að þær væru betur launaðar en t.d. dýralæknar. En nei, þannig er málum ekki háttað.

 Las grein eftir Guðmund Andra Thorsson í Fréttablaðinu í morgun. Þar vitnar GAT í Gunnar Björnsson formann samninganefndar ríkisins. Skilji ég málið rétt (las ekki umrædda grein/viðtal) þá telur Gunnar að eðli starfa skuli vera mælieining þegar ákvarða eigi laun fólks. Ekki bara menntun. 

Ekki veit ég hvaða eðli býr í brjósti formannsins. Er þá líf mæðra og barna ekki mikilvægt? Er mikilvægara að hjálpa hryssu að kasta en móður að fæða barn? Nei, ég bara spyr. Þetta er náttúrulega svo arfavitlaust að það nær engir átt. Ef við eigum að fara eftir eðli starfa hver er þá mælistikan? Og hver á að beita henni? Formaður samninganefndar ríkisins?

Sex ára nám á háskólastigi er metið til annarra starfa í heilbreigðisgeiranum. Hvers vegna ljósmæður eiga að vera undanskyldar þessu mati er mér bara algerlega formunað að skilja. Getur einhver sagt mér það?

Vil þakka Guðmundi Andra Thorssyni  fyrir hans skrif um málið. Lýsi eftir skoðunum fleiri karla á því.

 

 


Ljósanótt, taka tvö

Jæja, þá er ljósanóttin liðin. Henni lauk með trukki verð ég að segja. Bubbi gamli og Ego og svo í lokin þessi líka flotta flugeldasýning.  Það er áætlað að á fimmta tug þúsunda hafi verið í bænum í gærkveldi og miðað við mannhafið er það ekki ólíklegt.

Þrátt fyrir yfirlýsingar um að ætla nú að vera úti eftir miðnætti fór það nú ekki svo. Ég er hætt að reyna að vera hipp og kúl, amk. þegar það kemur að svona djammi. Er einhvern veginn bara orðin södd eftir Sandgerðisdaga um síðustu helgi og svo Ljósanóttina núna.

Var hins vegar í árlegri veislu hjá vinafólki sem hófst kl. 5, þegar litli vísirinn fór að færast yfir 10 var bara komið nóg. Lét mér því nægja að horfa á flugelasýninguna úr fjarlægt. Ég lýsi því hér með yfir að ég er orðin kerling.

Annars bara hipp og kúl.


mbl.is Mikill mannfjöldi á Ljósanótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annríki hjá lögreglunni á Suðurnesjum

Alltaf missi ég að mesta fjörinu. Um síðustu helgi var ég farin áður en herlegheitin hófust í Sandgerði og núna í Keflavík.

Ég get hins vegar upplýst ykkur um að fram að þeim tíma sem ég fór heim, fóru hátíðarhöldin afskaplega vel fram. Fórum á sýningar af ýmsum toga og svo á ballið. Raggi Bjaddna og Rúnni Júll tóku lagið sem og Maggi og Jói. Veðrið lék við okkur og bærinn var fullur af fólki. Flestir búnir að skreyta hús sín með ljósum.

En hvað er þetta með að loka ekki Hafnargötunni? Það verður gert í dag en það er greinilegt að það þarf að gera það líka á föstudeginum. Bílar eiga ekkert erindi í mannþvöguna sem var þarna í gærkveldi. Og börnin hlaupandi til og frá. Legg til að það verði gert að ári.

Ég er búin að sjá það að ég er slappur djammari. Þarf að vera úti eftir miðnætti til að missa ekki af meira fjöri en komið er. Það stendur til bóta í kvöld. Ætla að hjálpa vinafólki að gera klárt fyrir kvöldið og er á bæn til veðurguðanna að við fáum sama veður í kvöld. Góða skemmtun suðurnesjamenn.


mbl.is Annríki hjá lögreglunni á Suðurnesjum í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

hamingjukokteill

Er að velta því fyrir mér hvað minn hamingjukokteill innihéldi. Svona ef björt álfamey í bláum kjól með haddinn niður á rass stigi út úr álfasteini og segði við mig: "Jæja, Rut mín, hér er ég komin til að bjóða þér hamingjukokteil. Hvað á hann að innihalda?"

Humm. Auðvitað heimsfrið, nei ekkert fegurðardrottningakjaftæði. Þó ég þægi heimsfrið. Hvað þarf til að gera manneskju hamingjusama?.  Heldur ekkert svona hollywoodkjaftæði þar sem riðið er inn í sólarlagið. Gerði svona smá lista til að krossa í.

Samkvæmt Maslow þurfum við að vera laus við áhyggjur af afkomu okkar til að geta þroskað persónuleikann. (Selfactualizing personality) Hérna kæmi hálfur kross, þó ég hafi það bara gott miðað við t.d. konur í Jemen. En ég er nægjusöm og passlega kærulaus til að velta mér ekki allt of mikið upp úr veraldlegum gæðum, svona oftast. Það er helst um mánaðarmót sem ég bölsótast úti peningaleysið og það kæmi sér vel að hafa meira milli handanna. Reyni að dvelja ekki við þessa iðju of lengi því staðan er eins og hún er. Spurning hvort ég taki aftur þennan hálfa kross. Meiri fjárráð færu í koktelinn.

Við þurfum að vera viðurkennd í okkar hóp; af fjölskyldu, vinnufélögum eða öðrum heim hópum sem við tilheyrum. Held ég geti bara krossað við þetta skammarlaust. Þar sem ég er ekki lengur á vinnumarkaði er vinnufélögum ekki að dreifa. Á yndislegar dætur og dótturdætur ásamt slatta af tengdasonum núverandi og fyrrverandi og barnabörnum á ská. Systkin og móður á lífi ásamt mínum frábæru vinkonum. Er annars lítill hjarðsauður. Kross.

Eitt af því sem sem Maslow talar um er að þroskaðir persónuleikar þurfi meiri einveru en flestir. Og finnist það bara ágætt. Hef ekki búið með karli í ansi mörg ár og kann því bara vel. Er stundum einmana en það er bara mannleg tilfinning sem allir upplifa hvort sem þeir búa einir eður ei. Engir táfýlusokkar. Er sjálfri mér nóg með flesta hluti, nei ekkert dónó hér.  Ég er bara svo skemmtilega að það dugar fyrir mig.  Nei, nei, karlmenn eru ómissandi. Nú er ég orðin svo þroskuð að það hálfa væri hellingur. Næg einvera. Það væri ekki nema álfkonan góða biði mér uppá t.d. Jim Morryson og tímavél. Kross. 

Þar sem ég er alveg dottin í Maslow þá talar hann um að þetta fólk eigi oft fáa en góða vini. Eigi þess í stað djúp sambönd við þessa góðu vini. Á vinkonu sem ég er búin að eiga síðan við vorum 5-6 ára. Hún er fúl út í mig. Símhringing frá Lóu væri vel þegin. Fer í hamingjukoktelinn. Er annars ljóntrygg enda ljón. Hálfur kross.

Barnsleg gleði. Stór kross. Eins gott að þeir sem lesa bloggið mitt sjái mig ekki þegar ég er í stuði. Ég er ekki barnsleg, eiginlega meira svona fósturleg með eggjaívafi :D, get glaðst yfir ótrúlega ómerkilegum hlutum og brugðið mér í margra kvikinda líki ef svo ber undir. Kross.

Democratic caracter structure. Mátti til að láta þetta fylgja með. Hér mega hægrihundar éta úr sér hjartað. Komin af kommúnistum í marga ættliði. Það sést best á ummælum mínum um hægrih... hvað ég er þroskuð. Og umburðarlynd.

Þetta átti nú ekki í byrjun að vera úttekt á Maslow enda langt frá því að vera tæmandi, heldur svona hvað minn hamingjukokteill innihéldi. En hvað um það;

Hamingjukokteill:

Félagshyggjustjórn sem gerði mér kleyft að lifa á tekjunum mínum.

Jim Morryson og tímavél.

Símtal frá Lóu.

Annars bara góð. 

 

 

 

 


Bakari fyrir smið

Verkfall ljósmæðra að skella á. Væntanlega ganga hjúkrunarfræðingar í þeirra störf á meðan á því stendur.

Er að velta fyrir mér hvernig hlutirnir litu út ef við heimfærum þetta upp á aðrar stéttir:

Ef það lekur hjá þér, ekki hringja í pípara, fáðu leikskólakennara í jobbið.

Fáðu þér svo endilega rafvirkja til að segja þér til í uppeldismálum.

Ekki ráða viðskiptafræðing til að sjá um skattamálin og hlutabréfin, talaðu við konu sem vinnur við þrif í heimahúsum.

Ekki hleypa kokki inn í eldhúsið, fáðu frekar tölvunarfræðing í verkið.

Enga kennara í skólastofurnar, fiskvinnslufólkið inn þar.

Ég gæti auðvitað haldið endalaust áfram í þessari upptalningu. Margt gæti líka farið saman. En ætla að lát hér staðar numið. Má ég biðja um faglært fólk í sértækum málum. Löngu orðið tímabært að ljósmæður séu metnar til launa í samræmi við sína menntun. Þær (já þær) eiga minn stuðning vísan.

 

 

 

 


Klukk

Fjögur störf sem ég hef unnið:
fiskvinnsla
skúringakerling
leiðbeinandi
ráðgjafi
Fjórar uppáhaldsbíómyndir:
allar góðar kerlingamyndir með undir 10 byssukúlum
Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Sandgerði
Reykjavík
Keflavík
Úttlandið
Fjórir uppáhalds sjónvarpsþættir: 
Spaugstofan.
CSI
man ekki eftir fleirum sem ég horfi á svona reglulega, horfi ekki það mikið á sjónvarp.
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt:
England
Spánn, eins og allir hinir
Norðurlönd utan Finnlands og Grænlands
BNA
Fjórar síður sem ég skoða daglega: (f.utan blogg)
Mbl.is.
Vísir.is.
Skoða ekki fleiri daglega
Fernt matarkyns í uppáhaldi:
Lamb.
Fiskur.
Kjúklingur.
Grænmeti. 
Fjórar bækur:
Flugdrekahlauparinn
100 ára einsemd
Hús andanna
Skræpótti fuglinn
hér gæti ég hins vegar haldið endalaust áfram.
Fjórir bloggarar sem ég klukka:
Þetta verða aðrir bloggarar að taka að sér, er svo nýfædd hérna. 
Hafðu svo ævarandi skömm fyrir að draga mig félagsskítinn í svona upptalningar. Það tæmist gersamlega í mér heilinn.Blush


Spörfuglinn minn

Það fer að styttast í að Spörfuglinn minn komi heim frá Þýskalandi. 14. sept. er dagurinn. Ég er svo mikil ungamamma að það hálfa væri hellingur. Þó hún sé flutt að heiman þá er bara best að hafa hana innan seilingar og geta knúsað hana.

Hetjusaga þessarar litlu konu er sú að hún fæddist eftir um 30 vikna meðgöngu og var tæpar 6 merkur og 40 sentimetrar. Tekin með keisara þegar ljóst var að það var mjög af henni dregið og hún hefði ekki lifað inniveruna lengur þar sem ég var með meðgöngueitrun á háu stigi. En hún fæddist lifandi öfugt við tvær systur hennar sem dóu á meðgöngunni vegna sama sjúkdóms.

Það er efni í heila bók að lýsa verunni á vökudeildinni og sorgum og gleði þeirra foreldra sem voru þarna á sama tíma og við. Sem dæmi var einn lítill polli sem var enn minni en hún, ávallt kallaður Jón tröll. Þarna var ég vakin og sofin þessar 6 vikur þangað til hún fékk að koma heim. Sat við kassann og snerti hana því ég var viss um að hún þyrfti snertingu svona alein og án mömmu inni í lokuðu rými, söng fyrir hana og talaði við hana. Með nagandi samviskubit vegna stóru systur sem var sett á "hold" á meðan.  Starfsfólkið hefur eflaust hugsað sitt um þessa syngjandi, snertandi móður en talandi um starfsfólk vökudeildarinnar þá er bara eitt orð yfir það: frábært.

Fyrsta árið var afar erfitt. Fékk einn aukamánuð í fæðingarorlof við þessa 3 sem aðrir fengu á þessum tíma. Smákonan grét meira og minna fyrsta árið og þurfti gjöf á þriggja tíma fresti til að byrja með. Þessi tími er í hálfgerðri þoku þar sem móðirin var hálf sofandi mest allan tímann. Samviskubitið yfir að geta illa sinnt stóru systur sem var að bresta i táning. Svo bankaði óttinn upp reglulega: er örugglega allt í lagi með hana? Svona andlega. Svo fengum við þær fréttir að hún væri með hjartagalla sem þyrfti að laga.

Það var áætlað að hún færi í hjartaaðgerðina áður en hún byrjaði í skóla. En aðgerðinni var flýtt um tæpt ár og við Dæsa stóra systir fórum til London annan í jólum og aðgerðin var gerð daginn fyrir gamlársdag. Aðgerðin tókst vel og sú stutta farin að hlaupa um ganga sjúkrahússins daginn eftir aðgerðina.

Til að gera langa sögu stutta þá hefur þessi spörfugl brillerað í námi alla sína skólagöngu. Dúxaði í 10. bekk, tók fimm verðlaun af átta. Þrenn þegar hún varð stúdent. Á svipuðum tíma var mikil umræða um hversu langt skyldi ganga í því að hjúkra fyrirburum og ef ég man rétt þá voru það Svíar sem settu mörkin við 6 merkur. Miðað við það hefði spörfuglinn minn ekki fengið að lifa.

Mikið svakalega verð ég glöð að fá hana heim. Og hafa báðar stelpurnar mínar hjá mér.

 

 

 


heyja Norge

Norðmenn vilja að fyrrum forsetisráðherra endurgreiði ofgreiðslu úr lífeyrissjóði. Ráðherran hefur þegar greitt til baka hluta af greiðslunum en þarf að gera betur. Er nú svona að reyna að heimfæra þetta uppá ísland en mér er lífsins ógömulegt að sjá fyrir mér að slíkt gerðist hér á skerinu.

Hér eru menn á launum í námi erlendis, þyggja biðlaun og fá launagreiðslur á sama tíma og guð má vita hvað. Eignir þingmanna eru leyndarmál þó svo að þær gætu hugsanlega haft áhrif á ákvarðanatöku þeirra þegar hagsmundir heillar þjóðar eru í húfi. Bendi ykkur á að lesa skrif donsins í þessu sambandi.

Mikið vildi ég að við gætum hisjað upp um okkur buxurnar og reynt að taka t.d. norðmenn okkur til fyrirmyndar og gert skurk í því að leiðrétta lífeyrismál þingmanna þannig að þau séu í takti við annað fólk í landinu. Við erum jú ein þjóð. Eignir og greiðslur til þingmanna eiga að vera gagnsæjar. Þegar menn fara undan í flæmingi er einmitt ástæða til að skoða málið betur. Lýsi eftir því að blaðamenn fari ofan í saumana á slíkum málum.

Annars bara góð á því á þessum yndislega mánudegi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband