Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Rödd barnanna en ekki fólksins?

Vona að hver einasti maður sem kemur að stjórn Íslands lesi þessa frétt. Hvernig farið þið annars að því að horfast í augu við sjálf ykkur? Ekki tetur af samvisku?

Kannski ná raddir barnanna inn fyrir hrokamúrinn hjá ykkur því greinilega gera raddir okkar fullorna fólksins það ekki. Hvernig verður ykkar minnst í sögubókunum sem börn framtíðarinnar eiga eftir að lesa í skólum landsins ef einhver á eftir að þora að eiga börn  í framtíðinni? Verða ykkar afkomendur  stoltir af verkum ykkar?

Hvern langar annars til að fæða börn í heim þar sem þau útskrifast af fæðingardeildinni  ( þangað sem fólk tekur með sér nesti) með milljóna skuld í farteskinu. Börnin okkar fá sko skellinn af spillingu og sérhagsmunapoti ykkar, hvað ætli margar fjölskyldur leysist upp á nýju ári þegar heimilin fara undir hamarinn og það fer að hrikta í stoðum hjónabanda? 

Ef þetta eru ekki raddir þjóðarinnar má ég hundur heita. Nú eða tík.

 

 


mbl.is Börnin full af kvíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessuð jólin

Jæja, þá eru blessuð jólin komin og farin, þó almanakið segi annað finnst mér jólin vera búin eftir annan. Svo er auðvitað áramótin eftir en samkvæmt mínu dagatali er það allt önnur ella en jólin. Maður þarf að fá að hafa smá sérvisku.

Jólin voru yndisleg í faðmi fjölskyldu og nýjustu viðbótinni honum Snata. Önnur óvænt gleði var bónorð sem dóttir mín fékk ásamt trúlofunarhring. Svo það verður brúðkaup á árinu. Mér tókst næstum því að gleyma ástandinu á landinu mínu svona rétt á meðan. Er ekki til í að láta taka burt gleðina yfir því að eiga tíma með ástvinum sínum þó mér virðist að það sé einmitt takmark þeirra sem  völdin hafa að ræna okkur öllu því sem hægt er. Gleðina fá þeir ekki.

Annars endaði annar í jólum í ælupest hjá frúnni svo seinni hluti annars var haldinn í rúminu en við því er ekkert að gera. Komin á lappir aftur og ekki seinna vænna þar sem familían heldur jólaball í dag, komum saman um 60 manns. Við erum svo heppin að eiga músikanta í familíunni svo það verður dansað og sungið. Segi nú stundum að 10% af Íslandi séu komin út að foreldrum mínum en þau eiga  um  90 afkomendur. Okei, ég er slök í reikningi.

Mitt framlag til jólaballsins er að baka vestfirskar hveitikökur til að eta með ketinu svo ég má ekki vera að þessu, þarf að fara að steikja. Set inn myndir þegar við komum heim, því þetta verður vel skjalfest jólaball.

Gleðilega rest.

 


Gleðileg jól

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla elskurnar mínar stórar og smáar.

Hér er jólakort fyrir pólistiska rétthugsun. Aldrei frí............

 http://www.youtube.com/watch?v=0wC-oKYPHT8


Jólagleði?

Jólaúthlutun Hjálparstarfs kirkjunnar, Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands og Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur stendur nú yfir. Sendingar út á land eru farnar og fólk af höfuðborgarsvæðinu fær úthlutað í húsnæði Straums í Borgartúni 25. 44% aukning hefur orðið í umsóknum um aðstoð, um 2300 fjölskyldur um allt land fá aðstoð nú en voru 1597 í fyrra. Varlega áætlað má reikna með 2,5 einstaklingum á bak við hverja umsókn sem þýðir að 5.750 einstaklingar njóti aðstoðar, að því er segir í tilkynningu.

Ráðamenn Íslands, verða gleðileg jól hjá ykkur?


mbl.is Sífellt fleiri leita aðstoðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógeðsblogg

Ég er með ógeð á Íslandi. Ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur. Færi ég til útlanda (já, glætan) segðist ég vera Færeyingur enda Færeyinga í miklu uppáhaldi hjá mér. Vil ekki að nokkur maður viti að ég er sprottin úr sama ranni og fólkið sem stjórnar landinu mínu, n.b. í minni og margra annarra óþökk. Og allur umheimurinn híar á  okkur og skilur ekkert í því að enginn hefur verið handtekinn, engar eignir frystar og sama fólk situr ennþá??? Það er ekki ástæða til að vera stoltur af uppruna sínum um þessar mundir. Við erum molbúar og á svipuðu róli og Afríkuríki þegar kemur að pólitík.

Félagshyggjufólkið, flest hvert, er orðið argasta íhald, blaðamenn keyptir og seldir, hvítt er svart.

Tvítug dóttir mín spurði mig fyrir síðustu kosningar:"Mamma, hvað á ég að kjósa? Ég veit að þú ert svona félagshyggjumanneskja, á ég að kjósa Samfylkinguna?" Og ég auðvitað í einfeldni minni sagði henni að auðvitað ætti hún að lesa stefnuskrá flokkanna og finna út frá því hvað henni hugnaðist best. Nú þarf ég að éta það ofan í mig að stefnuskrá er svona plagg til að veifa fyrir kosningar og gleyma svo eftir það. Lexia fyrir unga fólkið í landinu.

Það líður vart dagur á aðventunni öðru vísi en að ósköpin dynji yfir okkur. Ég er kominn með upp í kok af ógeðsdrykknum sem mér er gert að dreypa á daglega. Ég trúi öllu eða engu. En það er kannski einmitt tilgangurinn; að rugla okkur svo alvarlega í ríminu að við vitum ekki lengur hvað er hvað. Tölur um skuldir og kökuskiptingar eru svo stjarnfræðilegar að það er ómögulegt að setja þær í samhengi við venjulegan veruleika.  Og eiga allar eftir að versna þegar stór hluti þjóðarinnar flýr land og við þessar fáu hræður sem eftir verðum þurfum að borða stærri hluta að ógeðskökunni.

Mér er lífsins ómögulegt að fara í jólastellingar og svífa um eldhúsið með svuntuna framan á mér og jólaglampann í augum eins og ég geri nú að öllu jöfnu. Óöryggið, vonleysið og óvissan hefur rænt þessari gleði frá mörgum fjölskyldum, held meira að segja að stjórnin hafi komist í jólagardínurnar mínar og rænt þeim líka því þær eru ófinnanlegar. Þær hafa verið síkkaðar og styttar og guð má vita hvað í gegnum tíðina og margar íbúðir en eru semsagt farnar núna. Eins og afborganir, útborgun og vinnan í íbúðinni minni.

Ef þið eigið svona jólapillu þá sendið hana snarlega. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

 

 

 

 

 


Ný vekjaraklukka, vantar nafn..

Var að fá nýja vekjaraklukku á fjórum fótum. Hann er bastarður. Var að hugsa um að kalla hann Starkaður bastarður en það er nú frekar óþjált.LoL Komnar nokkrar tillögur um nafn, eitt af þeim er Skundi, auðvitað eftir barnabókinni Emil og Skundi. Valdís dóttir mín og hennar familía tók að sér að keyra í Biskupstungur og ná í hann og síðan kom ég til Rvk. til að ná í hvutta. Hún hringdi þegar hún var komin á staðinn því hún ætlaði að velja fyrir mig. "Mamma, það er einn hérna sem er alveg eins og Skundi, manstu ekki eftir bókakápunni á Emil og Skundi"?  Móðir hennar var alveg blönk á þessa bókakápu. Treysti hennar innsæi í jobbið.

 En bara Snati?

Þetta litla skinn er svo fallegur og með selsaugu. Blendingur af border collie, irish setter og slatti af hinu og þessu með. Alger bastarður. Og ótrúlega fallegur. Hann er mikið fyrir franska kossa, það er ekki gagnkvæmt amk. ekki þegar húsdýrin eiga í hlut. Ég hef haldið miklar ræður yfir fólki sem " sefur hjá heimilisdýrunum og hvað það sé ósmekklegt", verð nú að éta það ofan í mig því við sváfum bæði mjög vel, í rúminu mínu. Hann er hins vegar greinilega meiri morgunhani en ég B-manneskjan, svo hér var farið á fætur kl. 6:30 í morgun, óguðlegur tími. Mér finnst fínt að vakna rólega svona um níuleitið og skrönglast fram í morgunkaffi og taka tvo tíma í fréttalestur og bloggheimsóknir en Skundi er ekki sammála. Hann vill leika. Frown

Þess vegna sit ég hér og blogga í morgunsárið og leita eftir nafni. Sagði ég annars Skundi áðan, ætli það festist? Eitthverjar betri tillögur en Starkaður bastarður? Endilega að láta vita ef ykkur dettur eitthvað í hug.

Rutlaskutla hundamamma. Og alger plebbi. Og sefur hjá húsdýrunum. Og verður að éta ofan í sig áðurnefnda sleggjudóma. Það viðurkennist hér með.


10% af hvaða upphæð?

Forstjórar stærstu lífeyrissjóða landsins hafa verið með 20-30 milljónir króna í árslaun. Hæstu launin fékk Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, tæpar 30 milljónir króna, eða um 2,5 milljónir á mánuði á síðasta ári. Framkvæmdastjóri Gildis, Árni Guðmundsson, var með 21,5 milljónir króna en 10% lækkun á því nemur rúmum 2 milljónum.

Á þetta að gleðja okkur hin? Hvaða dúsa er þetta? Lækkunin nemur rúmum árslaunum öryrkja. Þau eru uþb. 1. 700.000-. Eftir standa ofurlaun þrátt fyrir það.

Skammist ykkar.


mbl.is Laun stjórnenda helstu lífeyrissjóða munu lækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðsamleg mótmæli, vænleg til árangurs?

Það er hiti í mönnum eins og sést á fréttum s.l. sólarhring. Verkalýðsforkólfar með margföld laun félagsmanna sinna sátu fyrir svörum á fjölmennum borgarafundi. Ofurlaunastefnan lifir góðu lífi þar sem annars staðar, þar er ekki samið um sömu laun fyrir sig og aðra. Hljómar þetta kunnuglega? RÚV, sjónvarp allra landsmanna sjónvarpaði ekki frá fundinum. Þar voru fréttamenn frá útlandinu, verður fróðlegt að sjá og heyra hvað þeir segja um fundinn því glöggt er gests augað.

Ungt fólk sem búið er að binda á skuldaklafa til framtíðar mótmælir svo eftir er tekið. Ég verð að segja að ég samsama mig þessu fólki miðaldra kerlingin. Það er ekki hlustað þegar við mótmælum friðsamlega eins og dæmin sanna undanfarnar vikur og mánuði. Allir sitja sem fastast og glæpamennirnir/þjófarnir sem komu okkur á hausinn ganga allir lausir. Enginn pólitíkus hefur sagt af sér. Mér segir svo hugur að mótmælin eigi eftir að versna og meiri harka verði í þeim. Vonandi eru ráðamenn að skilja að við látum ekki leiða okkur til slátrunar án þess að í okkur heyrist. Má ég frekar biðja um ungt reitt fólk sem er óhrætt við að mótmæla en sinnuleysi yfir því sem er að gerast á landi íss og elda. Það er svo alltaf spurning um aðferðafræðina.

Nú hefur fólk mætt á Austurvelli margar vikur í röð, en enginn heyrir, við erum búin að tala á borgarafundum en erum ekki rödd þjóðarinnar. Er þetta svona hvar er Villi leikur?

Við erum rödd þjóðarinnar og ef þið heyrið ekki í okkur verðum við að taka til okkar ráða. Hvort sem það er að hætta að borga eða mótmæla af meiri þunga en hingað til. Við látum ekki þagga niður í okkur lengur.

Burt með spillingarliðið.

 

 

 

 


Hættum að borga, núna!

Ég fjárfesti í íbúð í september 2006. Hún var keypt á 7,2 millur sem þykir ekki mikið en hún var í þannig ástandi að það þurfti að skipta öllu út nema þaki og gluggum. Tók lán hjá Íbúðarlánasjóði uppá 6 millur. Borgaði 20% í útborgun og varð svo að taka aukalán í banka uppá milljón, hluti yfirdráttur og hluti lán, til að geta klárað að gera íbúðina íbúðarhæfa. Ein og staðan var þá gat ég borgað af þessu með aðhaldi sem ég var svo sem ekki óvön. Engir jeppar og flatskjáir, bara þak yfir höfuðið.

Á þessum tíma var ég á launum hjá sveitarfélagi, þó að heilsan væri ekki uppá það besta drattaðist ég þó í vinnuna í 10 mánuði en kom því að heilsan leyfði það ekki lengur og hófst þá langdregið ferli sem tók nokkra mánuði að fá mig dæmda öryrkja Þannig að ári eftir kaupin var ég í þeirri stöðu að geta ekki unnið lengur og sjá ekki fram á að geta aukið tekjurnar. Stökk með 135.000 á mánuði það sem eftir lifir.

Tveim árum seinna er lánið hjá Íbúðalánsjóði komið uppí 7.500.000 þó ég sé búin að greiða af því í tvö ár uþb. 750.000.  Sama gildir um bankalánið, það haggast ekki og hækkar að sama skapi. Yfirdrátturinn með 24% vöxtum eins og alþjóð veit. Fæ undanþágu frá afborgun af námslánum þar sem ég er öryrki, lánið hljóðaði á sinum tíma uppá 3 millur en er núna í 6 millum.

Afborganirnar hafa hækkað yfir árið sem nemur tæpum mánaðarlaunum hjá mér. Öll vinnan fyrir bí. Allar afborganir fyrir bí, hækkunin á íbúðinni sjálfri farin; útborgun, ómæld vinna, afborganirnar til einskis. Ég skulda meira núna en ég gerði þegar ég keypti eignina og núna dekkar hún ekki lengur lánin sem hvíla á henni, ef ég seldi.

Það þarf engan að undra að fólk á Íslandi sé reitt. Mitt dæmi er bara pínulítið brot af því sem aðrar eru með, tala nú ekki um um fólk sem keypti húsnæði uppá tugi milljóna.

Við erum búin að reyna  að mótmæla friðsamlega í margar vikur. Ekkert gerist. Enginn segir af sér. Áfram rúllar boltinn og bætir á sig við hverja byltu, lánin hækka, afborganir hækka en samt sést ekki högg á vatni.

Ástandið er orðið þannig að eina leiðin sem mér sýnist fær úr þessu er að allir taki sig saman og hætti að borga af lánunum. Friðsamleg mótmæli er ekki nóg eins og dæmin sanna, það hefur ekkert verið gert þrátt fyrir þau. Allir sitja sem fastast og hía á okkur vitleysingana sem höldum að við getum talað okkur út úr þessu. Og að á okkur sé hlustað.

Tillaga dagsins; nú hættum við að borga, við erum búin að fá nóg að því að láta taka okkur í þurran rass............. kominn tími til aðgerða, orðin duga greinilega ekki.

Við erum hvort sem er á hausnum, höfum engu að tapa lengur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband