Færsluflokkur: Bloggar
9.12.2008 | 13:31
Friðsamleg mótmæli, vænleg til árangurs?
Það er hiti í mönnum eins og sést á fréttum s.l. sólarhring. Verkalýðsforkólfar með margföld laun félagsmanna sinna sátu fyrir svörum á fjölmennum borgarafundi. Ofurlaunastefnan lifir góðu lífi þar sem annars staðar, þar er ekki samið um sömu laun fyrir sig og aðra. Hljómar þetta kunnuglega? RÚV, sjónvarp allra landsmanna sjónvarpaði ekki frá fundinum. Þar voru fréttamenn frá útlandinu, verður fróðlegt að sjá og heyra hvað þeir segja um fundinn því glöggt er gests augað.
Ungt fólk sem búið er að binda á skuldaklafa til framtíðar mótmælir svo eftir er tekið. Ég verð að segja að ég samsama mig þessu fólki miðaldra kerlingin. Það er ekki hlustað þegar við mótmælum friðsamlega eins og dæmin sanna undanfarnar vikur og mánuði. Allir sitja sem fastast og glæpamennirnir/þjófarnir sem komu okkur á hausinn ganga allir lausir. Enginn pólitíkus hefur sagt af sér. Mér segir svo hugur að mótmælin eigi eftir að versna og meiri harka verði í þeim. Vonandi eru ráðamenn að skilja að við látum ekki leiða okkur til slátrunar án þess að í okkur heyrist. Má ég frekar biðja um ungt reitt fólk sem er óhrætt við að mótmæla en sinnuleysi yfir því sem er að gerast á landi íss og elda. Það er svo alltaf spurning um aðferðafræðina.
Nú hefur fólk mætt á Austurvelli margar vikur í röð, en enginn heyrir, við erum búin að tala á borgarafundum en erum ekki rödd þjóðarinnar. Er þetta svona hvar er Villi leikur?
Við erum rödd þjóðarinnar og ef þið heyrið ekki í okkur verðum við að taka til okkar ráða. Hvort sem það er að hætta að borga eða mótmæla af meiri þunga en hingað til. Við látum ekki þagga niður í okkur lengur.
Burt með spillingarliðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.12.2008 | 12:36
Hættum að borga, núna!
Ég fjárfesti í íbúð í september 2006. Hún var keypt á 7,2 millur sem þykir ekki mikið en hún var í þannig ástandi að það þurfti að skipta öllu út nema þaki og gluggum. Tók lán hjá Íbúðarlánasjóði uppá 6 millur. Borgaði 20% í útborgun og varð svo að taka aukalán í banka uppá milljón, hluti yfirdráttur og hluti lán, til að geta klárað að gera íbúðina íbúðarhæfa. Ein og staðan var þá gat ég borgað af þessu með aðhaldi sem ég var svo sem ekki óvön. Engir jeppar og flatskjáir, bara þak yfir höfuðið.
Á þessum tíma var ég á launum hjá sveitarfélagi, þó að heilsan væri ekki uppá það besta drattaðist ég þó í vinnuna í 10 mánuði en kom því að heilsan leyfði það ekki lengur og hófst þá langdregið ferli sem tók nokkra mánuði að fá mig dæmda öryrkja Þannig að ári eftir kaupin var ég í þeirri stöðu að geta ekki unnið lengur og sjá ekki fram á að geta aukið tekjurnar. Stökk með 135.000 á mánuði það sem eftir lifir.
Tveim árum seinna er lánið hjá Íbúðalánsjóði komið uppí 7.500.000 þó ég sé búin að greiða af því í tvö ár uþb. 750.000. Sama gildir um bankalánið, það haggast ekki og hækkar að sama skapi. Yfirdrátturinn með 24% vöxtum eins og alþjóð veit. Fæ undanþágu frá afborgun af námslánum þar sem ég er öryrki, lánið hljóðaði á sinum tíma uppá 3 millur en er núna í 6 millum.
Afborganirnar hafa hækkað yfir árið sem nemur tæpum mánaðarlaunum hjá mér. Öll vinnan fyrir bí. Allar afborganir fyrir bí, hækkunin á íbúðinni sjálfri farin; útborgun, ómæld vinna, afborganirnar til einskis. Ég skulda meira núna en ég gerði þegar ég keypti eignina og núna dekkar hún ekki lengur lánin sem hvíla á henni, ef ég seldi.
Það þarf engan að undra að fólk á Íslandi sé reitt. Mitt dæmi er bara pínulítið brot af því sem aðrar eru með, tala nú ekki um um fólk sem keypti húsnæði uppá tugi milljóna.
Við erum búin að reyna að mótmæla friðsamlega í margar vikur. Ekkert gerist. Enginn segir af sér. Áfram rúllar boltinn og bætir á sig við hverja byltu, lánin hækka, afborganir hækka en samt sést ekki högg á vatni.
Ástandið er orðið þannig að eina leiðin sem mér sýnist fær úr þessu er að allir taki sig saman og hætti að borga af lánunum. Friðsamleg mótmæli er ekki nóg eins og dæmin sanna, það hefur ekkert verið gert þrátt fyrir þau. Allir sitja sem fastast og hía á okkur vitleysingana sem höldum að við getum talað okkur út úr þessu. Og að á okkur sé hlustað.
Tillaga dagsins; nú hættum við að borga, við erum búin að fá nóg að því að láta taka okkur í þurran rass............. kominn tími til aðgerða, orðin duga greinilega ekki.
Við erum hvort sem er á hausnum, höfum engu að tapa lengur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
5.12.2008 | 10:47
Rúni Júll látinn.
Rúni Júll er látinn. Það er mikill missir fyrir Keflvíkinga að hann er farinn úr mannlífsflórunni, hann var allt í öllu hér þegar kom að tónlist. Rúni lýsti því yfir á sínum tíma að hann kallaði Keflavík aldrei Reykjanesbæ og þar er ég sammála honum. Fáir hafa staðið jafn lengi á sviðinu og hann og einhvernveginn tókst honum alltaf að vera ferskur. Þau voru mörg meyjarhjörtun sem slógu hraðar þegar hann birtist á sviðinu. Ég var ein af þeim sem var svo fræg að sjá hann í gamla Glaumbæ (já, smyglaði mér inn) sveifla sér, ber að ofan. Ubertöffari. En eitt sinn verða allir menn að deyja.
Vil votta fjölskyldu hans og aðstandendum samúð mína.
Rúnar Júlíusson látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.12.2008 | 11:13
Borga og brosa.
Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, ætlar ekki að skýra viðskiptanefnd Alþingis frá vitneskju sinni um hvað varð til þess að Bretar beittu hryðjuverkalögum á Landsbankann á sínum tíma. Ber Davíð fyrir sig bankaleynd.
Með öðrum orðum: Ykkur kemur það bara ekkert við að á ykkur eru sett hryðjuverkalög, þegið þið bara. Hér ræð ég. Pay and smile enda erum við hamingjusamasta þjóð í könnunum langt aftur í tímann. Hélt annars nokkur að Doddi hrykki úr gírnum? Enda tilheyrir Jarpur ekki halelújakór Dodda en mig grunar að Doddi hafi notað sömu aðferðarfræði og við landann. Skrítið að Jarpur skyldi bregðast svona við eða þannig.
Manninum er ekki viðbjargandi.
Davíð ber fyrir sig bankaleynd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.12.2008 | 17:36
Frumvarpið um rannsóknanefndina hverjir eru á bak við það?
Vil endilega benda fólki að lesa þessa færslu hjá spámanninum. Copy/pastaði hana hér. Verði ykkur að góðu!:
Samkvæmt frumvarpinu um rannsóknarnefndina er það tilgangurinn. Gott og vel. Skoðum samt aðeins hverjir ætla að leita sannleikans. Sturla Böðvarsson (xD) semur, ásamt aðstoðarmönnum (xD), frumvarpið. Birgir Ármannsson (xD) er fomaður allsherjarnefndar sem fjallar um frumvarpið, svo kemur rúsínan í pylsuendanum, liklegt er að Páll Sveinsson (xD) hæstarréttardómari muni leiða rannsóknarnefndina. Hafa ber í huga að Páll þessi Sveinsson er fyrrum skósvein Davíðs Oddsonar (xD) og Geir H. Haarde (xD). Hvernig haldið þið að hann hafi orðið hæstaréttardómari?
Það er nokkuð ljóst að undanfarnar vikur hafa bankamenn staðið vaktina við tætaranna og því er fáránlegt til þess að hugsa að þessi vinna á að taka ár. Mér er fyrirmunað að skilja hvaða sannleik þeir ætla að finna úr þessu annan en þann sem er þeim þóknanlegur. Þessi rannsókn mun aðeins fara fram EINU sinni. Munið það kæru landar, HÚN VERÐUR AÐ FARA FAGMANNLEGA FRAM.
Með þetta í huga veltir maður fyrir sér hvort það að leita sannleikans sé í raun tilgangur nefndarinnar. Sjálfstæðismenn eru þarna allir í öllu. Ég held að flestir geti verið sammála um það að sú stefna sem hefur leitt okkur til glötunar sé frjálshyggjan. Ríkið á ekki að skipta sér að markaðnum, markaðurinn leiðréttir sig sjálfur, því meira frelsi því betra, það er gott að græða á daginn og grilla á kvöldin o.s.fr.v. Ég ásamt fleirum erum hrædd um að tilgangur réttarrannsóknarinnar sé fyrst og fremst að finna einhverja einstaklinga til að skella sökinni á. Þar af leiðandi róast almenningur og við sitjum eftir með sama viðbjóðslega kerfið sem þessir háu herrar uppnefna lýðræði. Þið skuluð ekki gleyma því að hugtakið löglegt en siðlaust er ekki bara hugtak á Íslandi. Hvar er allt menntafólkið okkar? Af hverju eru þau ekki að mótmæla Þessum vinnubrögðum? Eru háskólarnir á landinu bara heilaþvottastöðvar flokkanna?
Flokkurinn fyrst! Ekki gleyma því heldur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.12.2008 | 12:13
Kjararáð til hvers?
Þar með fuku fögur orð um þögn og jólaundirbúning fjandans til. Eina fólkið sem fær launahækkun í þessu árferði eru æðstu menn þjóðarinn sem komu henni í gjaldþrot. Finnst þeim í raun og veru að þau eigi skilið að fá klapp á bakið? Fólki er sagt upp í hundruða tali eða tekur á sig launalækkun en ekki þau, nei, þeir hafa náttúrulega staðið sig svo vel að það þarf að umbuna þeim. Með eftirlaunum og launahækkun.
Hvað ætli kosti okkur að hafa slíkt ráð? Getur einhver sagt mér það? Hvers vegna sitja ekki allir ríkisstarfsmenn við sama borð og semja um sitt kaup og sín kjör? Er ekki tími sparnaðar og aðhalds og niðurskurðar? Útaf með þetta ráð, það hefur sýnt í gegnum tíðina að það er algerlega úr takti við allt annað í landinu. Varla er þetta ráð eyland sem þjóðarskútan getur ekki syglt upp að.
Eftirlaunaósóminn staðfestur með smávægilegum breytingum og núna úrskurður kjararáðs um launahækkun til þingmanna. Af hvaða þjóðflokki er þetta fólk?
Ég er alveg á leiðinni að kaupa rauða málningu og kasta henni á þingið.
Kjararáð getur ekki lækkað launin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Hef verið afar löt við bloggið undanfarið. Eins og ég hafi farið úr gírnum þegar tölvan bilaði og netsambandið datt úr. Svosum ekki skrítið því lítið lætur maður í sér heyra í svoleiðis ástandi.
Er komin með upp í kok (afsakið meðan ég æli) í bili, af allri umræðu um hrun og fall og vexti og verðbætur. Þó það verði til þess að hinn sanni jólaandi fær áður óþekkt tækifæri til að sanna sig. Nú verða jólagjafir í smærri kantinum og það er bara allt í lagi svo lengi sem við fjölskyldan getum verið saman. Enda aldrei verið mjög kaupglöð manneskja og ein af fáum konum, skilst mér, sem finnst afar leiðinlegt að versla.
Nú tíðkast vöruskipti sem aldrei áður. Nonni frændi getur reddað hangikjötslæri og Gunna frænka bakar laufabrauð. Skipti út dúkum og jólamat. Örugglega ekkert sérstaklega gott fyrir hagkerfið að fólk stundi svona viðskipti en hvað skal gera?
Er að reyna að tala mig í jólastuð en það gengur hálf brösulega það er að segja að fara í þrif og skreytingar innan húss. Gigtin setur eðlilega strik í reikninginn en letin enn stærra strik. Hæst ber þó óttinn um hvað tekur við? Á ég yfirhöfuð heimili á næsta ári? Kannski tekur löggan mig við að ganga örna minni á Austurvelli? Verður það jólagjöfin frá stjórnvöldum á næsta ári? Er það framtíðarsýn okkar sem stólum á að ríkið greiði okkur örorkulífeyri sem hægt er að lifa af? Það hefur nú verið krukkað í hann áður. Jóhanna, við treystum á þig. Væri ekki í fyrsta sinn sem byrjað á að taka af þeim sem minnst hafa. Þeir sem stela mest ganga hins vega lausir.
Gat nú verið að ég nefndi sjórnvöld og spillingu. Lofa að gera það ekki aftur í bili.
Þetta er hins vegar alltaf spilað heima hjá okkur við jólaundirbúninginn, vona að þið getið nota þetta við að komast í jólaskapið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.11.2008 | 15:07
Þreyta og doði eða éttan sjálfur.
Við fáum fréttir af spillingu og valdagræði á nánast hverjum degi á síðustu og verstu tímum. Það er ekki ofsögum sagt að vald spilli. Núna síðast um Framsóknarflokkinn. Það læðist að mér sá grunur að sá flokkur sé ekki einn um það. Hemmhemm.
Þegar maður er bomberderaður svona daginn út og inn er ekki laust við að þreyta og doði taki völdin. Þetta ástand er að verða normið.
Enginn hefur verið sóttur til saka fyrir þjóðargjaldþrotið. Engar eignir frystar.
Svo koma menn eins og Steingrímur J. og láta flakka setningar eins og éttan sjálfur Björn. Menn grípa andann á lofti í hneikslan. Má ég frekar biðja um éttan sjálfur en hrokafull svör æðstu ráðamanna okkar. Kærar þakkir Steingrímur og orð í tíma töluð.
Mótmælafundir og borgarafundir eru rödd þjóðarinnar sem enginn á Alþingi virðist heyra og orð okkar eru dæmt dauð og ómerk þó við tölum í hundraða og þúsunda tali. Hvar ætlið þið ráðamenn að heyra rödd þjóðarinnar ef ekki þar? Hvar er púlsinn tekinn?
Þegi þú Þórður skögultönn er frasi sem við vinkonurnar notum. Má ég frekar biðja um þennan frasa en útúrsnúninga og niðurtal. Éttan sjálfur er kominn í mína orðabók. Til að vera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.11.2008 | 13:15
Mótmælin á Austurvelli.
Var að fletta Fréttablaðinu í morgun og á forsíðu þess er stór frétt um hópinn sem gerði aðsúg að lögreglustöðinni. Mótmælafundinum var hins vega holað niður á annarri síðu og upp á örfáar setningar.
Er ég ein um að finnast þetta skrítin fréttamennska?
Ég er ekki alveg viss um hvað mér finnst um atvikið við lögreglustöðina en skil hins vegar vel reiði fólksins sem var að mótmæla handtöku fánamannsins. Á föstudagskvöldi. Án þess að hann hafi verið boðaður til afplánunar. Eru yfirvöld svona hrædd? Er fánamaðurinn að ræna þá svefni? Í hvaða bakherbergi var þetta ákveðið? Litlu músarhjörtun farin að slá hraðar? Vonandi.
Ef það verður ekki farið að kröfum almennings, ekki bara þeirra sem mættu á fundinn því það er bara lítið brot, er ég ansi hrædd um að það dragi enn frekar til tíðinda. Er verið að bíða eftir Gúttóslag? Hvað þarf eiginlega að gerast til að á okkur verði hlustað? Óánægja og reiði fólksins verður ekki brotin á bak aftur með valdníðslu og heftingu á tjáningarfrelsi. Hvort sem það er bónusfáni eða friðsamleg mótmæli.
Mæli með því sem Hörður Torfa stakk uppá að fólk leggi niður vinnu 1. des. Og að tala þeirra sem koma saman næst laugardag verði enn hærri.
Burt með spillingarliðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.11.2008 | 12:43
Týra á tíkarskottinu.
Nú þykir mér týra á tíkarskottinu! Samfylkingarfólk er farið að tala um að við þurfum kosningar í vor. Það er gott til þess að hugsa að það sé fólk á háttvirtu (eða þannig) Alþingi sem skiljur hvað þjóðin er að biðja um. Aðrir ráðamenn virðast algerlega skilningsvana á að þeir eiga ekki traust þjóðarinnar né umboð lengur. Þannig er "lýðræðið"á Íslandi. Lýðurinn ræður engu.
Sumir býsnast yfir því að eggjum sé hent og skilja bara ekkert í þessum pirringi í fólki. Alveg rasandi bit að borgarar grýti þá! Þessir hvítflibba glæpamenn vilja ferðast óáreittir um götur landsins. Og eru svo óforskammaðir að hneikslast yfir því landinn sé ekki til friðs.
Aðrir heyra ekki rödd þjóðarinnar sem berst inn um glugga steins- og steypuhalla þar sem silkihúfurnar sitja sem fastast enda sjá þeir ekki eigin ábyrgð á strandi þjóðarskútunnar margnefndu. Að minnsta kosti ekki í heyranda hljóði. Og benda hver á annan og hvítþvo sjálfa sig og sjá ekki nokkra ástæðu til að víkja úr rjúkandi rústum íslensks þjóðfélags. Og skilja bara alls ekki að við njótum ekki trausts neins staðar í heiminum á meðan þetta fólk situr sem fastast.
Á morgun kl. 3 er 7. mótmælafundur fyrir framan Alþingishúsið. Vona að sem flestir mæti og þátttakendur verði enn fleiri en síðast. Krafan er kosningar í vor og enn og aftur:
Burt með spillingarliðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar