Færsluflokkur: Bloggar
9.11.2008 | 12:00
Ligga, ligga, lá.
Mikið svakalega er ég ánægð með mótmælin í gær. Áreiðanlegar heimildir (ekki lögreglu) segja að um 5.000 manns hafi safnast saman á Austurvelli í gær.
Einhverjir köstuðu matvöru í Alþingishúsið og ýmsir eru hneykslaðir vegna þess en ég er ekki ein af þeim. Skil bara mjög vel reiði fólks. Alþingi er nú búið að kasta meira en smá skyri á okkur þjóðina svo það er ekki skrítið að fólk grýti húsið. Ekki það að ég haldi að þetta sé vænlegt til árangurs en mjög skiljanlegt. Unga fólkið hefur líka sína skoðun á ástandinu og bara allt í lagi að það tjái hug sinn á sinn hátt. Allt betra en deyfðin og doðinn sem hefur ríkt undanfarið.
Svo virðist sem flestir ef ekki allir fjölmiðlar einblíni á þennan þátt mótmælanna en fjalli lítið um fundinn sjálfan og hvað fundargestir sögðu í ræðum sínum. Finnst þeim ekkert merkilegt að fimm þúsund manns komi saman til að mótmæla? Ég er í öllu falli stolt af því fólki sem mætti og sýndi í verki að það er reitt og vill sjá breytingar. Vil prívat og persónulega þakka þeim. Og svo enn og aftur:
Burt með spillingarliðið!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
8.11.2008 | 13:57
Táp og fjör og frískir menn..
Svei mér þá ef íslendingar eru ekki aðeins að vakna úr doðanum sem hefur einkennt þá á síðustu vikum og mánuðum. Og farnir að mótmæla. Táp og fjör og frískir menn, finnast hér á landi enn!
Maður les í erlendum fréttaflutningi að aðrar þjóðir eru rasandi yfir okkur vegna þess að við látum ekki í okkur heyra. Af hverju að hjálpa þjóð sem ekki hjálpar sér sjálf? Og nennir ekki að mótmæla rányrkju og skuldaklöfum sem lagðir eru á þá og afkomendur þeirra. Ég verð nú að segja það að ég skil þetta sjónarmið.
Ég hef notað bloggið mitt til að mótmæla sem og margir aðrir. Ég er meira að segja ekki frá því að það hafi nokkur áhrif. Mér færari pennar (lyklaborð) hafa gert þetta mun betur. Bendi í því sambandi á hana Láru Hönnu, Sigrúnu Jónsdóttur og fleiri hérna Moggablogginu. Gæti talið upp langan lista af fólki sem hefur bloggað um ástandið og eru þess virði að lesa reglulega. Það er fólk hér sem stendur vaktina. Guði sé lof fyrir upplýsingaöldina sem hinn venjulegi maður getur nýtt sér og látið rödd sína heyrast.
Við getum breytt hlutunum. Ef við stöndum saman. Ráðamenn eru alveg að fatta þetta líka!! Áfram íslendingar, burt með spillingarliðið.
Góða helgi góðir hálsar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.11.2008 | 15:30
Spillingarliðið burt!
Svei mér þá ef íslendingar eru ekki að læra að mótmæla. Húrra! Burt með allt spillingarliðið og það ekki seinna en í gær. Borgarafundur í Iðnó kl. 13:00 og mótmælin á Austurvelli kl. 15:00.
Nú þurfa allir að mæta sem geta. Fjölmennum á fundina. Guð blessi Ísland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.11.2008 | 13:04
Í minningu Hróars Ægissonar og Valdísar.
Hann Hróar minn hefði orðið 15 ára í gær. Með ólíkindum hvað tíminn er fljótur að líða. Þessi litli strákur sem heilsaði heiminum á köldum nóvembermorgni og sendi ljós ínn í líf okkar litlu fjölskyldu. Og kvaddi svo allt of fljótt stuttu seinna.
Nokkrum mánuðum áður komu til mín dóttir mín og kærasti hennar, hún 16, hann 17. Þau boðuðu fund með mér svo ég þóttist vita hvað klukkan sló. Og hafði rétt fyrir mér. Þau höfðu verið að dunda sér við að búa til barn á heimavistinni. Eftir að hafa misst tvö börn sjálf eru öll börn velkomin hjá mér, unglingsbörn, utanhjónabandsbörn, bara nefndu það. Ömmubarn alveg sérstaklega.
Þessi litli ömmustrákur lifði í 78 daga. Tæpa þrjá mánuði. Hann var eðlilega mikið hjá ömmu þar sem mamma var varla komin af barnsaldri, aðeins 17 ára stelpuvillingur. En hann afrekaði ýmislegt á þessum fáum dögum. Hann færði okkur mæðgur aftur saman. Eftir afskaplega erfið unglingsár og ýmsar pústra okkar á milli kom hann og sameinaði. Og hvarf svo af braut. Einn morguninn var hann dáinn í fanginu á mömmu sinni. Hafði vaknað undir morgun og fengið pela og bleyju og kúrði svo í mömmufangi og vaknaði ekki aftur.
Eflaust vinnu fólk misvel eða illa úr sorginni en í mínu tilfelli hverfur hún aldrei. Söknuðurinn hverfur aldrei. Það er alltaf eitthvað sem minnir á: Nú væri hann að byrja í leikskóla, skóla, fermast. Sex mánuðum eftir að hann dó náði ég því að verða þakklát fyrir hvern dag og hverja stund sem við áttum saman en ekki tjaldar sorgin til einnar nætur í mínu tilfelli.
Enn þann dag í dag má ég ekki heyra "Tears in heaven" án þess að fá kökk í hálsinn. Og hlusta bara á Enyu þegar enginn sér og heyrir. Hún söng þetta þegar við kvöddum litla prinsinn okkar.
Blessuð sé minning þín Hróar Þór. Þú lifir í hjárta mínu eins lengi og ég dreg andann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
31.10.2008 | 10:21
Viðhaldið mitt.
Ég má til að blogga svolítið um viðhaldið mitt. Hann klikkar aldrei. Hann er alltaf til staðar þegar ég þarf á honum að halda. Heitur og mjúkur.
Við erum búin að vera saman um nokkurt skeið. Enginn líknar eins og hann þegar ég þarf mest á því að halda. Sumar, vetur, vor og haust. Það geta ekki margir státað af slíkum stöðugleika, ekki einu sinni Doddi í Verðbréfalandi.
Þegar gigtin herjar á með lækkandi sól og tilheyrandi kulda er hann sá sem ég leita til. Við höfum varla komist fram úr rúmi síðustu daga svo innilega erum við spyrð saman. Ég gæti ekki hugsað mér lífið án hans.
Ég er auðvitað að tala um hitapokann minn. Dónarnir ykkar. Hélduð þið að ég ætlaði að fara að klæmast hér fyrir alþjóð? Aldeilis ekki. Allt of settleg kona.
Nú þegar ég er búin að atast í ykkur segi ég bara; góða helgi og látið sjást til ykkar á morgun.
Svona bara til gamans, gamalt og gott og heitir Hopelessly hoping.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.10.2008 | 09:47
Ganga og fundur
Bara að minna á að gangan á morgun hefst kl. 14:00 á Hlemmi. Gangan heldur svo áfram að Austurvelli og fundurinn hefst kl. 15:00. Nú geta allir sem ekki eru sáttir við gang mála, látið það í ljós með því að taka þátt.
Tökum okkur nú saman og sýnum í verki að við getum staðið saman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.10.2008 | 12:55
Að rannsaka sjálfan sig
Nú ætla ég að leggjast undir feld og rannsaka sjálfa mig. Og út frá því að rannsaka börnin mín. Ég er auðvitað afar hæf í þetta starf. Og algerlega óhlutdræg. Það segir sig sjálft.
Ef þau hafa verið óþekk þá fá þau kannski léttan skell á bossan en það þarf ekkert að vera að útvarpa því. Enda okkar prívat mál.
Ekki það að mínir krakkar eru eðlilega miklu betri krakkar en almennt gerist. Enda ól ég þau upp. Ég innprentaði þeim að við segjum alltaf satt. Og gerum alltaf rétt.
Það er alger óþarfi að vera að kalla til menn sem ekki eru í fjölskyldunni. Hvað kemur öðrum þetta við? All in the family.
Nú skyldi ég hlægja ef ég væri ekki dauð eins og kerlingin sagði.
Þetta er Ísland í dag.
Álíta sig hæfa til að rannsaka syni sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.10.2008 | 09:23
Working class hero
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
27.10.2008 | 07:58
Konur eru frá Venus, karlar frá Mars en ég er frá Júpiter
Veit ekki hvort ég er ein um það að líða stundum eins og ég sé stödd á vitlausri plánetu. Þessi tilfinningin hefur ágerst undanfarið. Ég er hreinlega ekki viss um að við fólkið í landinu búum á sama stað og þeir sem hér stjórna. Gapið verður stærra með hverjum deginum ef eitthvað er.
Geir, yfirmaður okkar allra, lýsir yfir fullum stuðningi við bankastjórn Seðlabankans. Enda hefur sú stjórn staðið sig með stakri prýði. Eða þannig. Raddir okkar fólksins heyrast ekki þegar við mótmælum og viljum að skipt verði út því fólki sem hefur ekki staðið sig í stykkinu. Það er meira að segja gert svo lítið úr mótmælum þeirra sem mættu á fundinn að útgefin tala um mannfjölda var stórlega lækkuð.
Annars um fundinn s.l. laugardag. Er Kolfinna Baldvinsdóttir með sér mótmæli? Erum við ekki öll að mótmæla því sama? Hvaða prímadonnustælar eru þetta eiginlega. Sameinuð stöndum við.
Fagna því að ISG sé komin aftur til starfa. Held að hún hafi verið með sjálfstæðisflokkslagað æxli sem nú sem betur fer hefur veri numið á brott. Óska henni góðs bata.
Silkihúfurnar standa upp hver af annarri og segja okkur að það sem skiptir mestu máli núna í kreppunni sé að halda utan um hvert annað og senda knús og kveðjur. Skrítin tilviljun að þessar sömu húfur eru allar mun betur launaðar en allur almenningur. Þó ég sé allra jafna afar fús til að gefa knús og kram þá er það ekki efst í huga mér. Ég vil breytingar.
Ég vil að landinu mínu sé stjórnar af fólki með fulle fem. Sem er starfi sínu vaxið. Og fer frá þegar og ef fram kemur að það sé það ekki. Ísland er ekki einkafyrirtæki. Þetta er landið mitt og allt sem hér fer fram kemur mér við. Bara svo það sé á hreinu. Og meðan ég dreg lífsandann mun ég mótmæla því að hér vaði menn uppi með rányrkju og reyni svo að sussa á okkur þegar við mótmælum. Og geri lítið úr því.
Hörður Torfason, ég tek hattin ofan fyrir þér.
Og svo áður en ég sest á kústinn og krúsa um himingeima, góðan og blessaðan daginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2008 | 13:18
Allt mér að kenna
Ef ykkur vantar blóraböggul þá er hann hér lifandi kominn. Þetta var allt mér að kenna. Ég keyrði fjármálkerfi landsins fjandanst til með vöxtum og verðbólgu á meðan ég sat í Seðlabankanum. Strákarnir voru svo sætir við mig að þeir þeir smíðuð svona regluverk þannig að við gætum leikið okkur svoldið og farið í svona smá áhættufjárfestingar. Bara allt í góðu.
Svo héldu þeir svo skemmtilegar veislur strákarnir. Þar skemmti sko ekki Geiri Ólafs, bara svo þið vitið það. Þar var sko fína fólkið allt saman komið. Skutust þetta á einkaþotunni strákarnir.
Svo seldum við okkur nokkur bréf svona í mesta bróðerni og keyptum þau svo aftur, bara eins og þegar við skiptum myndum að fótboltahetjunum okkar. Eru ekki allir í stuði?
Svo er þetta lið úti í bæ að rífa kjaft. Eins og okkur sé ekki slétt sama! Þetta eru tómir aumingjar og öryrkjar og gamalmenni. Allt á fylleríi eða þaðan af verra. Ekki smart lið. Má ég biðja um fólk sem á að minnsta kosti eina snekkju eða svo.
Nú er veislan búin, hvar er þetta pakk sem vinnur við að þrífa? Örugglega allir á fylleríi. Enn eina ferðina. Það þekkir ekki sinn stað þetta fólk. Ég sver það. Eins og það þurfi ekki einhver að þrífa. Heldur þetta fólk að ég þrífi? Er ekki allt í lagi?
Nei, nú er kominn tími til að þetta lið átti sig á því hver er hver í þessu landi. Og byrji að skúra, skrúbba og bóna. Og steinhaldi kjafti.
Eru ekki allir í stuði?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar