Færsluflokkur: Bílar og akstur
24.8.2008 | 11:05
áfram Ísland, áfram Dorrit
Jæja, þá er það ljóst að silfrið er okkar en gullið eigi. Held að við megum vel við una allavega miðað við höfðatölu. Það er auðvitað miklu merkilegra að íslendingar vinni silfur en t.d. frakkar. Þeir eru svo miklu fleiri en við.Ekki þannig meint að ég sé ekki stolt af frammistöðu íslendinga. Það er ég. Þessi mælistika sem við tökum svo gjarnan fram finnst mér hins vegar doldið skondin.
Menn eru mikið að tala um Dorrit og hvernig henni beri að haga sér. Ég er persónulega hrifin af henni. Mér líkar að fólk sé ekki með skaftið af hjálpartækjum heimilisins upp í óæðri endanum. Stórast í heimi er orðið fast í minni orðabók. Hvort hún heimsæki nuddstofur eða missi belti er bara allt í lagi mín vegna. Hvernig á konan að komast í samband við pöpulinn ef ekki einmitt að hitta fólk á þeirra heimavelli. Ég bara spyr.
Þegar ég bjó í Noregi reyndi ég lengi framan af að tala norsku eins og norsararnir en hætti því svo á endanum og talaði hana eftir það með íslenskum framburði. Mín reynsla er sú að heimamenn taki viljann fyrir verkið og þyki það virðingarvert að fólk reyni að tala þeirra tungumál. Sama finnst mér um Dorrit, hún leggur sig greinilega fram við að læra málið og tala það, hversu bjagað sem það kann svo að vera. Það mættu margir útlendingar sem hér búa taka hana sér til fyrirmyndar og læra málið, reyndar finnst mér að það ætti að vera kvöð á því að þeir sem sækja um ríkisborgararétt geti bjargað sér á ástkæra ylhýra. Áfram Ísland. Áfram Dorrit.
23.8.2008 | 11:25
Stórast í heimi
já, meira að segja ég sem hef ekki nokkurn áhuga né vit á íþróttum, gleðst yfir sigri íslendinga á spánverjum. Auðvitað miðað við hausatölu og í ljósi þess að við erum bara 300.000 hræður á skerinu. Veit ekki hvers vegna þessi mælistika er alltaf tekin fram þegar rætt er um árangur okkar í hinu eða þessu. Hvers vegna það skiptir máli í víðara samhengi.
Annars fannst mér forsetafrúin okkar álíka skemmtileg, Ísland stórast í heimi, það er ekki hægt að segja annað en hún rífi upp stemninguna. \u001fÞað eina jákvæða við ferð hjónanna til Kína. Annars kýs ég frekar að horfa á Taggart eða annað álíka á föstudagskvöldi og er orðin frekar leið á eilífum íþróttaþáttum sem mér virðist vera endalausir og búnir að vera á skjánum meira og minna í allt sumar. Hlakka til að geta skriðið undir eitt af mínum fögru bútasaumsteppum með kertaljós í rökkrinu og horft á eitthvað annað en íþróttir. Annars er ég frekar slöpp í sjónvarpsglápi svona yfirhöfuð. Er svoddan bókaormur og ef mér hefur tekist eitthvað vel í mínu uppeldi á dætrum mínum þá er það að yfirfæra þessa elsku mína á bókum, yfir til þeirra. Þegar þær voru litlar stelpur voru þessar stundir á kvöldin þegar ég las fyrir þær fyrir svefninn, oftar en ekki bestu stundir dagsins. Veit ekki hvernig ég byrjaði að skrifa um handbolta og endaði með nefið ofan í bók. Margt skrítið í kýrhausnum.
22.8.2008 | 15:58
testing 1 2 3
Nú skil hvað er átt við þegar menn með ritstíflu segja að síðan argi á þá. Hvernig byrjar maður á svona bloggi? Eða veður maður bara af stað og tjáir skoðun sína á mönnum og málefnum? Nóg til af þeim. En hverjar eru prenthæfar? Vil síður enda eins og Agnes Bragadóttir og eiga yfir höfði mér málaferli. Ekki það að pólitík og hennar pótintátar séu endilega efst í huga mér akkúrat núna. Þó ég hafi líka fullt af skoðunum á slíkum fyribærum.
Sit bara eins og kleina við eldhúsborðið og hlusta á Fisherman´s woman til að reyna að koma eitthverju skikki á hausinn. Og reyni að hugsa eitthvað gáfulegt en hvorki gengur né rekur. Svo ég ætla að segja ykkur sögu af afa mínum sem var hinn vænsti maður. Hún er prenthæf. Hann vann um tíma "upp á velli" og borðaði í "messanum" nema hvað að einn daginn var svokallaður bixímatur á boðstólum. Bixímatur er svona afgangar frá deginum áður ásamt fleiru miður lystilegu.Gamli maðurinn lítur á matinn og síðan á afgreiðslustúlkuna og segir: "Heyrðu fröken, hefur þessi matur verið borðaður áður?"
Já, bý á suðurnesjunum, ykkur kemur bara ekkert við hvar. Er fædd hérna og ólst hér upp. Bjó í höfuðborginni um 25 ára skeið en hef annars búið erlendis ásamt því að vera dreifari til nokkurra ára. Suðurnesjabúar eru sem sagt ekki dreifarar. Þá vitið þið það. Hef starfað við allt mögulegt og ómögulegt í gegnum tíðina. Menntaður tækniteiknari sem ég hef aldrei unnið við þar sem það átti á sínum tíma að vera grunnur fyrir frekari menntun á svið hönnunar. Yngri dóttir mín, já, tvær dætur, breytti þeim plönum. Allt gott um það að segja. Var svo að dunda mér við nám í uppeldisfræðum með með hléum en það hlé er orðið endanlegt þó svo að lítið vanti uppá.
Jæja, alltaf í boltanum? Held ég láti þetta bara duga í bili. Over and out
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar