2.9.2008 | 12:28
Spörfuglinn minn
Það fer að styttast í að Spörfuglinn minn komi heim frá Þýskalandi. 14. sept. er dagurinn. Ég er svo mikil ungamamma að það hálfa væri hellingur. Þó hún sé flutt að heiman þá er bara best að hafa hana innan seilingar og geta knúsað hana.
Hetjusaga þessarar litlu konu er sú að hún fæddist eftir um 30 vikna meðgöngu og var tæpar 6 merkur og 40 sentimetrar. Tekin með keisara þegar ljóst var að það var mjög af henni dregið og hún hefði ekki lifað inniveruna lengur þar sem ég var með meðgöngueitrun á háu stigi. En hún fæddist lifandi öfugt við tvær systur hennar sem dóu á meðgöngunni vegna sama sjúkdóms.
Það er efni í heila bók að lýsa verunni á vökudeildinni og sorgum og gleði þeirra foreldra sem voru þarna á sama tíma og við. Sem dæmi var einn lítill polli sem var enn minni en hún, ávallt kallaður Jón tröll. Þarna var ég vakin og sofin þessar 6 vikur þangað til hún fékk að koma heim. Sat við kassann og snerti hana því ég var viss um að hún þyrfti snertingu svona alein og án mömmu inni í lokuðu rými, söng fyrir hana og talaði við hana. Með nagandi samviskubit vegna stóru systur sem var sett á "hold" á meðan. Starfsfólkið hefur eflaust hugsað sitt um þessa syngjandi, snertandi móður en talandi um starfsfólk vökudeildarinnar þá er bara eitt orð yfir það: frábært.
Fyrsta árið var afar erfitt. Fékk einn aukamánuð í fæðingarorlof við þessa 3 sem aðrir fengu á þessum tíma. Smákonan grét meira og minna fyrsta árið og þurfti gjöf á þriggja tíma fresti til að byrja með. Þessi tími er í hálfgerðri þoku þar sem móðirin var hálf sofandi mest allan tímann. Samviskubitið yfir að geta illa sinnt stóru systur sem var að bresta i táning. Svo bankaði óttinn upp reglulega: er örugglega allt í lagi með hana? Svona andlega. Svo fengum við þær fréttir að hún væri með hjartagalla sem þyrfti að laga.
Það var áætlað að hún færi í hjartaaðgerðina áður en hún byrjaði í skóla. En aðgerðinni var flýtt um tæpt ár og við Dæsa stóra systir fórum til London annan í jólum og aðgerðin var gerð daginn fyrir gamlársdag. Aðgerðin tókst vel og sú stutta farin að hlaupa um ganga sjúkrahússins daginn eftir aðgerðina.
Til að gera langa sögu stutta þá hefur þessi spörfugl brillerað í námi alla sína skólagöngu. Dúxaði í 10. bekk, tók fimm verðlaun af átta. Þrenn þegar hún varð stúdent. Á svipuðum tíma var mikil umræða um hversu langt skyldi ganga í því að hjúkra fyrirburum og ef ég man rétt þá voru það Svíar sem settu mörkin við 6 merkur. Miðað við það hefði spörfuglinn minn ekki fengið að lifa.
Mikið svakalega verð ég glöð að fá hana heim. Og hafa báðar stelpurnar mínar hjá mér.
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæ hæ Rut.
Takk fyrir innlitið, já Védís er frábær og ég þekki fleiri sem bíða spenntir eftir að hún komi. Júlía getur ekki beðið.
Kveðja Júlli
Júlíus Garðar Júlíusson, 2.9.2008 kl. 13:42
hæ Júlli dúll,
sömuleiðis takk, kveðjur á Dalvíkurslektið.
Rut Sumarliðadóttir, 2.9.2008 kl. 13:49
Æji mamma. Ég táraðist við að lesa þetta. Ég hlakka alveg gríðarlega til að vera nálægt ykkur Dæsu, í fyrsta skiptið í mörg, mörg ár. En þetta eru nottla góð gen sem maður fékk, er það ekki? :)
Védís (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 16:54
Ég hlakka líka til að fá þig heim og suður!
Rut Sumarliðadóttir, 2.9.2008 kl. 18:11
Þið eigið allar hver aðra skilið.....þið eruð frábærar.
Sóldís
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 2.9.2008 kl. 21:13
Takk Sóldís, á tveir dísir sjálf.
Rut Sumarliðadóttir, 3.9.2008 kl. 00:42
Já það má sko með sanni segja að hún Védís okkar er frábær út í gegn!
Ég get ekki beðið eftir að fá hana heim, get ekki ímyndað mér hvernig þér líður!!!
En ég er búin að bjóða mér á flugvöllinn og í heimkomukaffið:D
Fjóla Heiðdal (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 17:16
Er þetta jólabarnið mitt? Alltaf velkomin Fjóla min!
Rut Sumarliðadóttir, 3.9.2008 kl. 20:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.