Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Sauðaþjófar enn á Íslandi?

Lögreglan á Hvolsvelli nappaði bónda fyrir að selja 16 kindaskrokka og á hann á von á sekt vegna athæfisins. Hvað kostar þá einn mannskrokkur sem er færður til slátrunar?Hvað segið  þið sem  slátruðu heilli þjóð? Hvað kostar eitt mannslíf hjá ykkur? Hvað kostar uppboð á einni fjölskyldu með manni og mús?

Ef þetta er til eftirbreytni hvað verður þá gert við bankastjórana? Og stuttbuxnadrengina? Og Seðlabankastjórana? Í landans tilfelli er um mannsskrokka að ræða. Þar eru menn búnir að færa til slátrunar heila þjóð, börnin okkar og barnabörnin sett á skuldaklafa til langrar framtíðar.

Ég er búin að fá nóg að þessum Pollýönnuleik sem er verið að reyna að troða upp á okkur. Ég er ekki tilbúin til að brosa í gegnum tárin og láta sem ekkert hafi í skorist. Og það er sko klárt að ég býð ekki hinn vangann.

Það er kominn tími til að allir taki sig saman og borgi ekki lánin sín. Fyrr en verðtrygging hefur verið afnumin og þeir sem sekir eru séu sótti til saka.

Vonandi verður góð þátttaka á laugardaginn.

 


Elskhugar mínir til sjávar og sveita...

óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Gömul nágrannakona mín á þessa setningu. Hún var ákveðin í því að senda hana í jólakveðjutíma ríkisútvarpsins. Þegar hún yrði gömul kona. Þannig vildi hún að elskhugar hennar vissu að hún hugsað til þeirra og enginn væri gleymdur! Hvort sem það var meint í gríni eða alvöru.

Það væri nú bara skemmtilegt ef hún léti verða af þessu. Ef hún gerir það ekki er ég ákveðin í að stela þessari hugmynd eins og bankastjóri að næla sér í smá aur í kreppunni. Nota hana um næstu jól og senda kveðjur á þessar elskur sem bældu mitt beð.

Annars nenni ég ekki að hugsa né skrifa um ástandið í dag. Ætla bara að bulla um hitt og þetta, aðallega þetta. Eins og hver önnur blondína.

Tilfinningatjútt:

Annars er maður eins og fyllibytta að vakna upp úr löngum túr, algerlega búin á því eftir þessar hremmingar sem virðast engan enda taka. Reiði, örvinglan, ótrú, vanmáttur, vonleysi, allur helvítis tilfinningaskalinn búinn að tjútta með tilfinningarnar út og suður.

Mér líður eins og blöðru sem búið er að stinga á. Eftir situr ólöguleg klessa sem er eins og gamalt tyggjó. Bragðlaust og klístrað. 

Ætti maður ekki að fara að hressa upp á vinskap við fólk í útlöndum? Athuga hvort það sé laust kvistherbergi sem hægt er að kúldrast í með táfýlu og tilbehör?

En fjandakornið, ég elska þetta sker og fólkið mitt sem býr þar. 

Ég segi eins og Gunnar: "Djöfull er hlíðin smart, ég fer ekki rassgat".

 


Skyldulesning fyrir landann

Nýjustu fréttir herma að nú sé verið að ráða til starfa sem endurskoðendur í bönkunum þá sömu menn og komu okkur á hausinn. En nú skulu þeir finna út hvernig þeir fóru að þessu og eru auðvitað með öllu hlutlausir í þessari vinnu sinni. Er ekki allt í lagi?

 Eru stjónarmenn og konur búnir að missa allt vit? Er þetta eina fólkið sem kemur til greina og er fært um slíka vinnu? Þetta er með slíkum ólíkindum að mér fallast hendur í skaut. Sem betur fer er ekki eins farið með Láru Hönnu. Skyldulesning!

 

http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/672519/


Ég lebb!!

Það eru komnir ansi margir dagar síðan ég hef haft kraft til að setjast við tölvuna og skrifa nokkarar línur. Ég, eins og restin af þjóðinni er í djúpum skít og timburmönnum en það væri að bera í bakkafullan lækinn að tala meira um ástandi á landinu mínu.

Við höfum setið á rökstólum nokkrar vinkonur um hvað við getum gert til að reyna að sporna við því að fara á hausinn og missa það litla sem okkur hefur tekist að öngla saman á síðustu og verstu tímum. Og halda geðheilsunni í leiðinni.

-Spilakvöld einu sinni í viku. Kostar ekkert og þar sem við erum flestar haldnar alzheimer light, eflir minni og rökhugsun.

-Bjóðum hvorri annarri í mat. "Heyrðu Jóna, mér var gefinn ýsusporður, við borðum hjá mér í kvöld"

-Förum í geymslurnar og gerum jólahreingerningu á ýmsu dóti sem safnar bara ryki og er til óþurftar. Höldum síðan bílskúrssölu og reynum að fá nokkrar krónur í vasann. Erum búnar að fá vilyrði fyrir bílskúr sem snarlega var nefndur "Kreppukofinn" og byrjaðar á að plana hvernig við nýtum aðstöðuna.

-Ein vinkonan átti verslun og situr uppi með dót og drasl úr því ævintýri.

-Önnur okkar er alltaf með nefið ofan í pottum og hún hefur verið að gera tilraunir með hundanammi og er dottin ofan á góða og ódýra lausn. Búið að prófa afurðina við góðar undirtektir. Þar er kominn annar varningur til sölu.

-Ég er saumakonan og á nokkra dúka tilbúna til sölu, ætla að bæta í safnið fram í desember.

Svo eftir áramót með gríðarlegan gróða í vösunum förum við til London og setjum aurinn í breskan banka.LoL

Nei, í alvöru talað eitthvað verður maður að reyna að klóra í bakkann og fá inn skerðinguna sem við höfum orðið fyrir sem minnst höfum á milli handanna. Brems....Nei, ég ætla ekki að tala um ástandið í þessu bloggi.

Ætla hins vegar að láta þennan flakka: Drengur einn bjó vestur á fjörðum. Hann var ekki talin mikil mannvitsbrekka og var sérlega illa að sér í íslensku. Dag nokkurn þurfti hann inn í fjörð og sagði við mömmu sína:" Ég þarf út í firð, viltu keyra mér"? Nei, móðirin gat það ekki. Þá sagði stráksi: "Það er allt í lagi, ég lebb".

Hafið það svo gott um helgina elskurnar mínar.

Rutalskutla stórburgeis.

 

 


Látið lífeyrissjóðina vera....

Enn einu sinni á ég ekki orð yfir ástandinu hér á landi. Nú á að fara að seilast í lífeyrissjóðina og þeir eiga að redda málunum sem stjórn landsins er búin að klúðra.

Látið lífeyrissjóðina okkar vera ráðamenn. Þetta er okkar prívat og persónulega eign. Er það yfirhöfuð löglegt að lífeyrissjóðir fari svona út fyrir sitt svið og láni peningana okkar að okkur forspurðum? Það er í hæsta máta mjög siðlaust.

Hvernig væri að hækka snarlega fjármagnstekjuskattinn og láta það fólk sem borgar nánast enga skatta og lifir á kerfinu eins og snýkjudýr taka þátt í skellnum. Ég er búin að fá nóg að af því að það skuli alltaf vera þeir sem minnst hafi sem taki á sig skellinn þegar illa árar. Er þetta það eina sem ráðamönnum dettur í hug?

Pétur Blöndal.... á hvaða plánetu lifir sá maður? Heldur hann í alvöru að við séum öll að kikna undan jeppakaupum? Skilur maðurinn ekki að við erum að tala um að eiga þak yfir höfuðið og að eiga til hnífs og skeiðar?

Það á að reka ykkur þarna á Alþingi og það með skófar á rassgatinu. Þið virðist bara vera þarna til óþurftar. Viðurkennið að þig getið þetta ekki, þið eruð ófær um að stjórna þessu landi.

Eins og dæmin sanna.


Gogo girls

Var að horfa á sjónvarpið í gærkvöldi. Við sátum tvær vinkonurnar og hlógum eins og fífl og frussuðum yfir borðhaldið sem samanstóð af síld, saltkexi, Kjarnafæðispaté, piparosti og öðru álíka gúmmolaði. En það er útúrdúr.

Á dagskrá kvöldsins var þáttur á Skjá einum sem nefnist því þjóðlega nafni; Singing bee. Eins og nafnið gefur til kynna þá er um að ræða þátt þar sem útvaldir áhorfendur í sal, koma upp og reyna að botna texta á ýmsusstu lögum.

Allt í góðu með það.

Það sem stóð í mér þarna í miðju borðhaldi var að allan tímann voru fjórar ungar stúlkur dillandi sér til hliðar við keppendur. Veit ekki hvort ég er að verða forpokuð kerling sem sér skrattann í hverju horni.

Blessaðar stúlkurnar voru klæddar í dökkan svona hálfgerðan flugfreyju/hjúkku búning sem varla huldi neðri hluta óæðri endans. Á höfðinu svona hálfgerðan flugfreyjubát. Allar með platínumljóst sítt hár og bara hreinlega eins og nánustu afkomendur Barbí.

Ókey, okey, ef þetta hefði verið söng- og danskeppni hefði þetta kannski sloppið. Kannski eru þær settar inn til að tryggja að landsins feður og eiginmenn velgi sófann. En svakalega fór þetta í mínar fínustu taugar. Alger óþarfi í þessum þætti.

Jenný Anna, nú verð ég líka stimpluð sem nasistafemínistadrusla. Hvað kostar ársgjaldið?


kreppufærsla með gigtarívafi

Jæja, svona í ofanálagt (eins og ein vinkona mín segir gjarnan:D) við bölvaða kreppuna þá er gigtin komin með snjónum. Gamalkunnir verkir fara að segja til sín, hnén bólgin og bölvaður ökklinn er að fylgja á eftir þeim. Mjöðmin í sínu versta stuði. Nýjasta viðbótin er hálsinn þar sem brjóskið er orðið eytt og gamlir áverkar eftir slys fara sífellt versnandi.

Ekki hætt/ur að lesa?

Skyldi nú engan undra á síðustu og verstu. Hver þarf  sjúkrasögu í viðbót við kreppuna sem allt er að drepa í landi íss og elda.

Ég verð nú samt að segja það að ég var hrifin af frú Þorgerði þegar hún lýsti því yfir að seðlabankastjóri væri embættismaður og ætti þar af leiðandi ekki að skipta sér af stjórnmálum!! Ætli honum hafi ekki dottið það í hug sjálfum? Hvað er í gangi í flokki sjálfstæðis? Hversu langt ætla sjálfstæðismenn að fara í að elta gamla foringjann sem augljóslega er mjög veill á geði? Og hefur ekki hugmynd um að hann er hættur í pólitík.

Og hvar er minn flokkur Samfylkingar? Eini pólitíkusinn sem ég hef séð vinna sína vinnu og halda sig við stefnuskrá er Jóhanna Sigurðardóttir. Hún reddar minni trú á að allir missi vit og heilsu við að stíga inn á Alþingi íslendinga. Og er eina ástæðan fyrir því að ég hef ekki sagt mig úr flokknum.

Ef ég setti á vogarskálar fjandans gigtina annars vegar og efnahagsmálin hins vegar þá ynni gigtin. Ég get sett í mig fullt af kemískum verkjalyfjum og legið og mókt vegna þeirra. Það eru engin meðul við hinu.

 


Ellismellir rokka

Nú hlær mín pí.... (nei ekkert svona, meina náttúrulega pínulitla hjarta). Þetta er sko fólk að mínu skapi!

Mér finnst þetta framtak svo frábært að ég tek ofan hattinn. Þetta mættu kórstjórar landsins taka sér til fyrirmyndar sem og starfsfólk sem vinnur með ellismellina okkar. Gæti komið jafnframt prjónaskap og gigtaræfingum.

Solla vantar Gylfa ekki aukavinnu?

Það er hefð fyrir kórstarfi í minni fjölskyldu. Amma söng í kirkjukórnum nánast alla sína hunds- og kattartíð. Sem og móðursystir. Mamma gerði það ekki en  hefur sérstaklega fallega, háa og bjarta rödd og meira að segja villingurinn ég stoppaði til að hlusta þegar hún söng. Við skessubörnin dætur hennar erum allar lagvissar og syngjum við hvert tækifæri sem gefst. Skemmtilegustu partýin eru þegar einhverjir af þessum músiköntum sem leynast í fjölskyldunni taka upp hljóðfærin og þá er sko sungið.

Svona fólk sem nýtur lífsins og gefur af sér í leiðinni þrátt fyrir háan aldur rokkar feitt.


mbl.is Ellismellir rokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband