hamingjukokteill

Er að velta því fyrir mér hvað minn hamingjukokteill innihéldi. Svona ef björt álfamey í bláum kjól með haddinn niður á rass stigi út úr álfasteini og segði við mig: "Jæja, Rut mín, hér er ég komin til að bjóða þér hamingjukokteil. Hvað á hann að innihalda?"

Humm. Auðvitað heimsfrið, nei ekkert fegurðardrottningakjaftæði. Þó ég þægi heimsfrið. Hvað þarf til að gera manneskju hamingjusama?.  Heldur ekkert svona hollywoodkjaftæði þar sem riðið er inn í sólarlagið. Gerði svona smá lista til að krossa í.

Samkvæmt Maslow þurfum við að vera laus við áhyggjur af afkomu okkar til að geta þroskað persónuleikann. (Selfactualizing personality) Hérna kæmi hálfur kross, þó ég hafi það bara gott miðað við t.d. konur í Jemen. En ég er nægjusöm og passlega kærulaus til að velta mér ekki allt of mikið upp úr veraldlegum gæðum, svona oftast. Það er helst um mánaðarmót sem ég bölsótast úti peningaleysið og það kæmi sér vel að hafa meira milli handanna. Reyni að dvelja ekki við þessa iðju of lengi því staðan er eins og hún er. Spurning hvort ég taki aftur þennan hálfa kross. Meiri fjárráð færu í koktelinn.

Við þurfum að vera viðurkennd í okkar hóp; af fjölskyldu, vinnufélögum eða öðrum heim hópum sem við tilheyrum. Held ég geti bara krossað við þetta skammarlaust. Þar sem ég er ekki lengur á vinnumarkaði er vinnufélögum ekki að dreifa. Á yndislegar dætur og dótturdætur ásamt slatta af tengdasonum núverandi og fyrrverandi og barnabörnum á ská. Systkin og móður á lífi ásamt mínum frábæru vinkonum. Er annars lítill hjarðsauður. Kross.

Eitt af því sem sem Maslow talar um er að þroskaðir persónuleikar þurfi meiri einveru en flestir. Og finnist það bara ágætt. Hef ekki búið með karli í ansi mörg ár og kann því bara vel. Er stundum einmana en það er bara mannleg tilfinning sem allir upplifa hvort sem þeir búa einir eður ei. Engir táfýlusokkar. Er sjálfri mér nóg með flesta hluti, nei ekkert dónó hér.  Ég er bara svo skemmtilega að það dugar fyrir mig.  Nei, nei, karlmenn eru ómissandi. Nú er ég orðin svo þroskuð að það hálfa væri hellingur. Næg einvera. Það væri ekki nema álfkonan góða biði mér uppá t.d. Jim Morryson og tímavél. Kross. 

Þar sem ég er alveg dottin í Maslow þá talar hann um að þetta fólk eigi oft fáa en góða vini. Eigi þess í stað djúp sambönd við þessa góðu vini. Á vinkonu sem ég er búin að eiga síðan við vorum 5-6 ára. Hún er fúl út í mig. Símhringing frá Lóu væri vel þegin. Fer í hamingjukoktelinn. Er annars ljóntrygg enda ljón. Hálfur kross.

Barnsleg gleði. Stór kross. Eins gott að þeir sem lesa bloggið mitt sjái mig ekki þegar ég er í stuði. Ég er ekki barnsleg, eiginlega meira svona fósturleg með eggjaívafi :D, get glaðst yfir ótrúlega ómerkilegum hlutum og brugðið mér í margra kvikinda líki ef svo ber undir. Kross.

Democratic caracter structure. Mátti til að láta þetta fylgja með. Hér mega hægrihundar éta úr sér hjartað. Komin af kommúnistum í marga ættliði. Það sést best á ummælum mínum um hægrih... hvað ég er þroskuð. Og umburðarlynd.

Þetta átti nú ekki í byrjun að vera úttekt á Maslow enda langt frá því að vera tæmandi, heldur svona hvað minn hamingjukokteill innihéldi. En hvað um það;

Hamingjukokteill:

Félagshyggjustjórn sem gerði mér kleyft að lifa á tekjunum mínum.

Jim Morryson og tímavél.

Símtal frá Lóu.

Annars bara góð. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.