Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Þreyta og doði eða éttan sjálfur.

Við fáum fréttir af spillingu og valdagræði á nánast hverjum degi á síðustu og verstu tímum. Það er ekki ofsögum sagt að vald spilli. Núna síðast um Framsóknarflokkinn. Það læðist að mér sá grunur að sá flokkur sé ekki einn um það. Hemmhemm.

 Þegar maður er bomberderaður svona daginn út og inn er ekki laust við að þreyta og doði taki völdin. Þetta ástand er að verða normið.

Enginn hefur verið sóttur til saka fyrir þjóðargjaldþrotið. Engar eignir frystar.

Svo koma menn eins og Steingrímur J. og láta flakka setningar eins og éttan sjálfur Björn. Menn grípa andann á lofti í hneikslan. Má ég frekar biðja um éttan sjálfur en hrokafull svör æðstu ráðamanna okkar. Kærar þakkir Steingrímur og orð í tíma töluð.

Mótmælafundir og borgarafundir eru rödd þjóðarinnar sem enginn á Alþingi virðist heyra og orð okkar eru dæmt dauð og ómerk þó við tölum í hundraða og þúsunda tali. Hvar ætlið þið ráðamenn að heyra rödd þjóðarinnar ef ekki þar? Hvar er púlsinn tekinn?

Þegi þú Þórður skögultönn er frasi sem við vinkonurnar notum. Má ég frekar biðja um þennan frasa en útúrsnúninga og niðurtal. Éttan sjálfur er kominn í mína orðabók. Til að vera.

 

 

 


Mótmælin á Austurvelli.

Var að fletta Fréttablaðinu í morgun og á forsíðu þess er stór frétt um hópinn sem gerði aðsúg að lögreglustöðinni. Mótmælafundinum var hins vega holað niður á annarri síðu og upp á örfáar setningar.

Er ég ein um að finnast þetta skrítin fréttamennska?

Ég er ekki alveg viss um hvað mér finnst um atvikið við lögreglustöðina en skil hins vegar vel reiði fólksins sem var að mótmæla handtöku fánamannsins. Á föstudagskvöldi. Án þess að hann hafi verið boðaður til afplánunar. Eru yfirvöld svona hrædd? Er fánamaðurinn að ræna þá svefni? Í hvaða bakherbergi var þetta ákveðið? Litlu músarhjörtun farin að slá hraðar? Vonandi.

Ef það verður ekki farið að kröfum almennings, ekki bara þeirra sem mættu á fundinn því það er bara lítið brot, er ég ansi hrædd um að það dragi enn frekar til tíðinda. Er verið að bíða eftir Gúttóslag? Hvað þarf eiginlega að gerast til að á okkur verði hlustað? Óánægja og reiði fólksins verður ekki brotin á bak aftur með valdníðslu og heftingu á tjáningarfrelsi. Hvort sem það er bónusfáni eða friðsamleg mótmæli.

Mæli með því sem Hörður Torfa stakk uppá að fólk leggi niður vinnu 1. des. Og að tala þeirra sem koma saman næst laugardag verði enn hærri.

Burt með spillingarliðið.

 

 

 


Týra á tíkarskottinu.

Nú þykir mér týra á tíkarskottinu! Samfylkingarfólk er farið að tala um að við þurfum kosningar í vor. Það er gott til þess að hugsa að það sé fólk á háttvirtu (eða þannig) Alþingi sem skiljur hvað þjóðin er að biðja um.  Aðrir ráðamenn virðast algerlega skilningsvana á að þeir eiga ekki traust þjóðarinnar né umboð lengur. Þannig er "lýðræðið"á Íslandi. Lýðurinn ræður engu.

Sumir býsnast yfir því að eggjum sé hent og skilja bara ekkert í þessum pirringi í fólki. Alveg rasandi bit að borgarar grýti þá! Þessir hvítflibba glæpamenn vilja ferðast óáreittir um götur landsins. Og eru svo óforskammaðir að hneikslast yfir því landinn sé ekki til friðs. 

Aðrir heyra ekki rödd þjóðarinnar sem berst inn um glugga steins- og steypuhalla þar sem silkihúfurnar sitja sem fastast enda sjá þeir ekki eigin ábyrgð á strandi þjóðarskútunnar margnefndu. Að minnsta kosti ekki í heyranda hljóði. Og benda hver á annan og hvítþvo sjálfa sig og sjá ekki nokkra ástæðu til að víkja úr rjúkandi rústum íslensks þjóðfélags. Og skilja bara alls ekki að við njótum ekki trausts neins staðar í heiminum á meðan þetta fólk situr sem fastast.

Á morgun kl. 3 er 7. mótmælafundur fyrir framan Alþingishúsið. Vona að sem flestir mæti og þátttakendur verði enn fleiri en síðast. Krafan er kosningar í vor og enn og aftur:

Burt með spillingarliðið.


Ligga, ligga, lá.

Mikið svakalega er ég ánægð með mótmælin í gær. Áreiðanlegar heimildir  (ekki lögreglu) segja að um 5.000 manns hafi safnast saman á Austurvelli í gær.

Einhverjir köstuðu matvöru í Alþingishúsið og ýmsir eru hneykslaðir vegna þess en ég er ekki ein af þeim. Skil bara mjög vel reiði fólks. Alþingi er nú búið að kasta meira en smá skyri á okkur þjóðina svo það er ekki skrítið að fólk grýti húsið. Ekki það að ég haldi að þetta sé vænlegt til árangurs en mjög skiljanlegt. Unga fólkið hefur líka sína skoðun á ástandinu og bara allt í lagi að það tjái hug sinn á sinn hátt. Allt betra en deyfðin og doðinn sem hefur ríkt undanfarið.

Svo virðist sem flestir ef ekki allir fjölmiðlar einblíni á þennan þátt mótmælanna en fjalli lítið um fundinn sjálfan og hvað fundargestir sögðu í ræðum sínum. Finnst þeim ekkert merkilegt að fimm þúsund manns komi saman til að mótmæla?  Ég er í öllu falli stolt af því fólki sem mætti og sýndi í verki að það er reitt og vill sjá breytingar. Vil prívat og persónulega þakka þeim. Og svo enn og aftur:

Burt með spillingarliðið!


Táp og fjör og frískir menn..

Svei mér þá ef íslendingar eru ekki aðeins að vakna úr doðanum sem hefur einkennt þá á síðustu vikum og mánuðum. Og farnir að mótmæla. Táp og fjör og frískir menn, finnast hér á landi enn!

Maður les í erlendum fréttaflutningi að aðrar þjóðir eru rasandi yfir okkur vegna þess að við látum ekki í okkur heyra. Af hverju að hjálpa þjóð sem ekki hjálpar sér sjálf? Og nennir ekki að mótmæla rányrkju og skuldaklöfum sem lagðir eru á þá og afkomendur þeirra. Ég verð nú að segja það að ég skil þetta sjónarmið.

Ég hef notað bloggið mitt til að mótmæla sem og margir aðrir. Ég er meira að segja ekki frá því að það hafi nokkur áhrif. Mér færari pennar (lyklaborð) hafa gert þetta mun betur. Bendi í því sambandi á hana Láru Hönnu, Sigrúnu Jónsdóttur og fleiri hérna Moggablogginu. Gæti talið upp langan lista af fólki sem hefur bloggað um ástandið og eru þess virði að lesa reglulega. Það er fólk hér sem stendur vaktina. Guði sé lof fyrir upplýsingaöldina  sem hinn venjulegi maður getur nýtt sér og látið rödd sína heyrast.

Við getum breytt hlutunum. Ef við stöndum saman. Ráðamenn eru alveg að fatta þetta líka!! Áfram  íslendingar, burt með spillingarliðið.

Góða helgi góðir hálsar.

 

 


Spillingarliðið burt!

Svei mér þá ef íslendingar eru ekki að læra að mótmæla. Húrra! Burt með allt spillingarliðið og það ekki seinna en í gær. Borgarafundur í Iðnó kl. 13:00 og mótmælin á Austurvelli kl. 15:00.

Nú þurfa allir að mæta sem geta. Fjölmennum á fundina. Guð blessi Ísland.


Í minningu Hróars Ægissonar og Valdísar.

Hann Hróar minn hefði orðið 15 ára í gær. Með ólíkindum hvað tíminn er fljótur að líða. Þessi litli strákur sem heilsaði heiminum á köldum nóvembermorgni og sendi  ljós ínn í líf okkar litlu fjölskyldu. Og kvaddi svo allt of fljótt stuttu seinna.

Nokkrum mánuðum áður komu til mín dóttir mín og kærasti hennar, hún 16, hann 17. Þau boðuðu fund með mér svo ég þóttist vita hvað klukkan sló. Og hafði rétt fyrir mér. Þau höfðu verið að dunda sér við að búa til barn á heimavistinni. Eftir að hafa misst tvö börn sjálf eru öll börn velkomin hjá mér, unglingsbörn, utanhjónabandsbörn, bara nefndu það. Ömmubarn alveg sérstaklega.

Þessi litli ömmustrákur lifði í 78 daga. Tæpa þrjá mánuði. Hann var eðlilega mikið hjá ömmu þar sem mamma var varla komin af barnsaldri, aðeins 17 ára stelpuvillingur. En hann afrekaði ýmislegt á þessum fáum dögum. Hann færði okkur mæðgur aftur saman. Eftir afskaplega erfið unglingsár og ýmsar pústra okkar á milli kom hann og sameinaði. Og hvarf svo af braut. Einn morguninn var hann dáinn í fanginu á mömmu sinni. Hafði vaknað undir morgun og fengið pela og bleyju og kúrði svo í mömmufangi og vaknaði ekki aftur.

Eflaust vinnu fólk misvel eða illa úr sorginni en í mínu tilfelli hverfur hún aldrei. Söknuðurinn hverfur aldrei. Það er alltaf eitthvað sem minnir á: Nú væri hann að byrja í leikskóla, skóla, fermast. Sex mánuðum eftir að hann dó náði ég því að verða þakklát fyrir hvern dag og hverja stund sem við áttum saman en ekki tjaldar sorgin til einnar nætur í mínu tilfelli.

Enn þann dag í dag má ég ekki heyra "Tears in heaven" án þess að fá kökk í hálsinn. Og hlusta bara á Enyu þegar enginn sér og heyrir. Hún söng  þetta þegar við kvöddum litla prinsinn okkar.

Blessuð sé minning þín Hróar Þór. Þú lifir í hjárta mínu eins lengi og ég dreg andann.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband